Home / Fréttir / Yfirhershöfðingi Noregs og krónprins á Jan Mayen

Yfirhershöfðingi Noregs og krónprins á Jan Mayen

Hakon krónprins og Haakon Bruun-Hanssen, yfirmaður norska hersins, stíga úr Lockheed C-130 Hercules norska flughersins á vellinum við Olonkinbyen á Jan Mayen.
Hákon krónprins og Haakon Bruun-Hanssen, yfirmaður norska hersins, stíga úr Lockheed C-130 Hercules norska flughersins á vellinum við Olonkinbyen á Jan Mayen.

Haakon Bruun-Hanssen, yfirmaður norska hersins, og Hákon, krónprins Noregs, heimsóttu Jan Mayen þriðjudaginn 24. febrúar. Þeir höfðu viðdvöl í norsku herstöðinni í Olonkinbyen.

„Þar sem Jan Mayen er í miðju Noregshafi eins og flugmóðurskip við festar getur eyjan orðið strategískt mikilvæg og þýðingarmikil,“ hefur norska fréttastofan NTB eftir Bruun-Hanssen. „Jan Mayen er fyrst og síðast hluti Noregs. Hún er mikilvægur hluti yfirráðasvæðis okkar og fyrir fullveldisrétt okkar á svæðinu, þá skiptir hún verulegu vegna þess að umhverfis hana er efnahagslögsaga yfir umtalsverðum auðlindum.“

Norski herinn hefur haldið úti stöð á Jan Mayen síðan í síðari heimsstyrjöldinni. Í henni eru 14 manns frá hernum auk fjögurra veðurfræðinga.

Hákon krónprins óskaði eftir að fara í heimsókn til eyjarinnar: „Það er mjög áhrifamikið að sjá Jan Mayen með eigin augum. Þetta er hluti Noregs sem ég hef aldrei heimsótt áður. Náttúran er ótrúlega stórfengleg,“ sagði krónprinsinn eftir skoðunarferð.

Hann tók undir með yfirmanni hersins og áréttaði hagrænt gildi Jan Mayen fyrir Noreg. „Að við eigum eyju hér úti í hafi veitir okkur rétt til efnahagslögsögu umhverfis hana. Í mjög mörg ár hefur verið starfsemi hér sem er mikilvæg fyrir Noreg,“ sagði krónprinsinn.

Í frétt NTB segir að innan efnahagslögsögunnar sé stór hrygningarsvæði fisks. Um fjórðungur makrílstofnsins komi meðal annars úr efnahagslögsögunni umhverfis Jan Mayen. Þá hafi nýlega verið skýrt frá því að fundist hafi mikið af sjaldgæfum, verðmætum steinefnum á hafsbotni milli Jan Mayen og Svalbarða.

Sífellt fleiri ferðamenn hafa áhuga á að heimsækja eyjuna. Í fyrra voru skráðar 23 skipakomur, þangað komu meðal annars hollensk hjón á seglbát og skip með 400 Þjóðverja um borð.

Yfirmaður stöðvarinnar á Jan Mayen, Rune Leirvik ofursti, segir að rannsóknir, meðal annars vegna loftslagsbreytinga, verði sífellt meiri á eyjunni. Þar er nyrsta virka eldfjall heims og árið 2010 var það, eyjan öll og lögsagan friðuð. Iðn- og vélvæðing hefur haft mjög lítið áhrif á svæðinu.

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …