Home / Fréttir / Yfirforingjaskipti í rússneska Norðurflotanum

Yfirforingjaskipti í rússneska Norðurflotanum

Mynd af Konstantin Kabantsov flotaforingja er felld inn í mynd af rússenskum kafbáti, Severodvinsk Jasen -gerð.

 

Nýr yfirmaður hefur verið settur yfir rússneska Norðurflotann, Konstantin Kabantsov flotaforingi. Hann kemur í staðinn fyrir Alexander Moisejev flotaforingja sem hefur verið settur yfirmaður alls rússneska sjóhersins. Þá hafa fjórir nýir kafbátar einnig bæst við Norðurflotann og enn einn er á leiðinni.

Nikolaj Jevmenov flotaforingi sem stjórnaði rússneska sjóhernum frá 2019 lét nýlega af störfum án þess að gerð hafi verið grein fyrir ástæðum brottfarar hans.

Rússneska ríkisrekna fréttastofan TASS segir að ráðamenn í Kreml vilji ekki ræða breytingar í æðstu stjórn sjóhersins. Sagt er að ef til vill megi rekja þær til þess hve halloka rússneski sjóherinn hefur farið á Svartahafi í stríðinu við Úkraínumenn.

Konstantin Kabantsov var áður herráðsformaður og fyrsti varastjórnandi Norðurflotans þar sem hann hóf störf í október 2021. Hann tók formlega við stjórn Norðurflotans þriðjudaginn 18. mars 2024 þegar minnst var kafbátadags norðursins við hátíðlega athöfn. Hann var á sínum tíma yfirmaður 24. kafbátadeildar Norðurflotans.

Um miðjan janúar 2024 var hætt að líta á Norðurflotann sem sérstakt herstjórnarsvæði, hann fellur nú undir Leningrad-herstjórnarsvæðið sem hefur verið endurreist. Rússneska varnarmálaráðuneytið segir að rekja megi þessa breytingu til stækkunar NATO að rússnesku landamærunum í Finnlandi og til aðildar Svía að bandalaginu.

Athafnasvæði Norðurflotans er mjög stórt: Norður-Atlantshaf, Barentshaf og strand-landamærasvæði Noregs og Finnlands, rússneski hluti Norður-Íshafs allt austur að Austur-Síberíuhafi. Þá eru skip úr flotanum reglulega send til aðgerða annars staðar í heiminum.

Flestar stöðvar og herbúðir Norðurflotans eru á Kólaskaga, skammt frá landamærum Noregs og Finnlands. Undanfarin 10 til 12 ár hafa Rússar einnig eflt stöðvar sínar og viðveru við Norður-Íshaf eins á Novaja Semlja, Franz Josef Landi og Nýju-Síberíueyjum.

 

Heimild: High North News

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …