Home / Fréttir / Yfirflotaforingi NATO áréttar mikilvægi GIUK-hliðsins á Varðbergsfundi

Yfirflotaforingi NATO áréttar mikilvægi GIUK-hliðsins á Varðbergsfundi

 

Frá Varðbergsfundinum með Clive Johnstone í Safnahúsinu
Frá Varðbergsfundinum með Clive Johnstone í Safnahúsinu

Clive Johnstone, flotaforingi, yfirmaður herflota NATO, flutti erindi á hádegisfundi Varðbergs föstudaginn 23. september í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Fundurinn var vel sóttur og að loknu erindinu svaraði flotaforinginn fyrirspurnum fundarmanna.

Fyrirlesturinn bar fyrirsögnina NATO og mikilvægi GIUK-hliðsins, það er hafsvæðanna frá Grænlandi um Ísland til Skotlands. Er augljóst að þar hefur orðið breyting undanfarin misseri og innan NATO er hugað meira að öryggismálum á þessu svæði en gert hefur verið í fimmtán til tuttugu ár. Á þetta við um umferð á hafinu, í undirdjúpunum og í lofti. Áréttaði yfirflotaforinginn að gildi eftirlits á þessu svæði væri ómetanlegt fyrir NATO og yrði að haga því í samræmi við áreiti hverju sinni.

Í máli flotaforingjans kom fram að viðbragðstími NATO til að virkja flota undir merkjum sínum hefur styst mjög frá því sem var fyrir fáeinum árum. Þetta hefði til dæmis sést þegar óskað var aðildar bandalagsins að gæslu á hafsvæðinu milli Tyrklands og Grikklands þar sem hættuástand skapaðist vegna mikils straums flótta- og farandfólks.

Johnstone benti á að NATO hefði ekki mótað stefnu um sameiginlegar aðgerðir á Norður-Íshafi og þar bæri að treysta á samstarf innan Norðurskautsráðsins til að viðhalda góðum samskiptum ríkjanna átta sem ættu aðild að ráðinu.

Hann taldi að ekki ætti að líta óvinveittum augum á áhuga Kínverja til að nýta sér ný tækifæri í Norður-Íshafi heldur stofna til samstarfs við þá væri þess kostur.

Flotaforinginn var spurður um skilin milli gæslu á hafinu með hervaldi annars vegar og lögregluvaldi hins vegar. Hann taldi að þessi skil yrðu sífellt ógleggri eins og sannaðist á Miðjarðarhafi þar sem herflota væri beitt við gæslu vegna smygls á fólki milli landa. Innan flotans yrðu menn að tileinka sér nýjar aðferðir og læra af öðrum eins og Landhelgisgæslu Íslands þar sem menn byggju yfir mikilli reynslu af margþættum verkefnum.

Clive Johnstone dvaldist hér á landi frá fimmtudegi til laugardags og skoðaði meðal annars aðstöðu á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli sem lýtur daglegri stjórn landhelgisgæslunnar í umboði utanríkisráðuneytisins.

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …