Home / Fréttir / Xi verður í Moskvu í næstu við til stuðnings Pútin

Xi verður í Moskvu í næstu við til stuðnings Pútin

Vladimir Pútin og Xi Jinping.

Xi Jinping Kínaforseti ætlar að heimsækja Moskvu mánudag til miðvikudags í næstu viku var tilkynnt föstudaginn 17. mars. Með því ætlar forsetinn að lýsa blessun yfir stríðsrekstri Rússa í Úkraínu og styðja við bakið á Vladimir Pútin Rússlandsforseta.

Kínastjórn hefur ekki fordæmt innrás Pútins í Úkraínu og leitast við að sýna hlutleysi á sama tíma og hún segir að „engin takmörk“ séu á vináttu hennar við Rússa.

Kínastjórn segist einnig fylgja þeirri stefnu að virða beri fullveldi og landamærahelgi allra ríkja. Hún lýsir hins vegar andúð á refsiaðgerðum Vesturlanda gegn Rússum og sakar NATO og Bandaríkjamenn um að ögra Rússum á þann veg að þeir verði að grípa til vopna.

Qin Gang, utanríkisráðherra Kína, sagði fimmtudaginn 16. mars við Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, að Kínverjar hefðu áhyggjur af því að styrjaldarátökin yrðu stjórnlaus og þeir vildu að gengið yrði til viðræðna við Rússa um pólitíska lausn.

Qin sagði að Kínverjar hefðu ávallt tekið hlutlæga og sanngjarna afstöðu til málefna Úkraínu og þeir hefðu einsett sér að stuðla að friði og hvetja til viðræðna og hvatt alþjóðasamfélagið til að skapa aðstæður til friðarviðræðna.

Kuleba sagði síðar á Twitter að hann hefði rætt við Qin um mikilvægi landamærahelgi og friðartillagna Zelenskíjs Úkraínuforseta. Sama dag og Kuleba ræddi við Qin átti hann einnig samtal við Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Wang Wenbin, upplýsingafulltrúi kínverska utanríkisráðuneytisins, sagði á daglegum blaðamannafundi sínum 17. mars að Xi forseti mundi ræða ítarlega við Pútin forseta um tvíhliða samskipti ríkjanna og höfuðviðfangsefni á alþjóðavettvangi sem snerti ríkin tvö, stuðla að strategísku samstarfi ríkjanna og hagnýtri samvinnu.

Hann sagði að heimsmálin einkenndust af óróleika og breytingar gerðust hraðar en áður. Þar sem Kínverjar og Rússar ættu báðir fast sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna væru áhrif þeirra síður en svo bundin við tvíhliða samskipti þeirra.

Kínverjar leggja áherslu á að Xi fari til Moskvu í boði Pútins og þeir muni rita undir „mikilvæg tvíhliða skjöl“.

Á fjarfundi sem forsetarnir áttu í desember 2022 lagði Pútin til að Xi kæmi til Moskvu til að sýna öllum heiminum sterk tengsl Rússa og Kínverja.

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …