
Xi Jinping Kínaforseti kom um kl. 11.00 að íslenskum tíma að morgni mánudags 20. mars til Moskvu í þriggja daga opinbera heimsókn. Forsetinn lýsti heimsókn sinni sem „vináttuferð í þágu samvinnu og friðar“. Xi hefur ekki komið til Moskvu í fjögur ár.
Fréttaskýrendur segja heimsóknina núna pólitískan og siðferðilegan stuðning við einangraðan Vladimir Pútin Rússlandsforseta sem er eftirlýstur af alþjóðasakamáladómstólnum fyrir brottnám barna frá Úkraínu.
Xi Jinping birtir 20. mars grein í rússneska blaðinu Rossijskaja Gazeta þar sem hann áréttar að hann komi í nafni vináttu, samvinnu og friðar. Hann segist ætla að vinna að því með Pútin að móta „nýja sýn“ í tvíhliða samskiptum ríkjanna.
Í krafti þess að hafa nýlega náð að koma á stjórnmálasambandi að nýju milli Sádi Arabíu og Írans vilja Kínverjar nú láta að sér kveða í þágu sátta á milli Rússa og Úkraínumanna til að binda enda á stríðið sem Pútin hóf fyrir tæpum þrettán mánuðum.
Vladimir Pútin birtir mánudaginn 20. mars grein í kínversku blaði þar sem hann fagnar áhuga Kínverja á að leggja sitt af mörkum til að koma reglu á átökin. Telur Rússlandsforseti að tengsl Rússa og Kínverja hafi aldrei í sögunni verið nánari en núna.
Dmitri Medvedev, fyrrv. Rússlandsforseti og handbendi Pútins, hefur áunnið sér orð fyrir fúkyrði í garð Vesturlanda eftir að innrásin í Úkraínu hófst. Hann er nú varaformaður öryggisráðs Rússa og sagði á Telegram síðunni eftir handtökuskipun alþjóðasakamáladómstólsins í Haag á hendur Pútin: „Það má vel hugsa sér að gerð verði hárnákvæm árás með ofurhljóðfrárri rússneskri flaug, Oniks, frá rússnesku herskipi á Norðursjó á byggingu dómstólsins í Haag.“ Benti hann dómurunum á „líta með athygli til himins“.
Úkraínumenn krefjast þess að Rússar hverfi úr landi sínu og háttsettur úkraínskur embættismaður, Oleksij Danilov, ritari öryggisráðs Úkraínu, bendir á að ekki sé minnst á þetta í friðaráætluninni sem kennd er við Xi Jinping.
Í Kyív stendur mönnum ekki alveg á sama þegar þeir vita af Xi Jinping í Moskvu. Þeir óttast að lagt verði á ráðin um hvernig Kínverjar geti stutt Rússa í stríðinu, til dæmis með vopnum.
Aðeins nokkrir dagar eru liðnir frá því að Xi Jinping var kjörinn forseti Kína þriðja kjörtímabilið í röð sem ekki hefur gerst áður frá því að einvaldurinn Maó féll frá á áttunda áratugnum. Xi kallar Pútin gjarnan „gamlan vin“ sinn og þremur vikum áður en Pútin réðst inn í Úkraínu lýstu hann og Xi yfir „takmarkalausri“ samvinnu ríkjanna.
Kínverjar hafa aldrei fordæmt innrásina í Úkraínu opinberlega en þeir gagnrýna Bandaríkjamenn fyrir að senda vopn til Úkraínu og NATO fyrir að hafa ekki tekið nægilegt tillit til öryggis Rússa. Kínverjar hvetja engu að síður til viðræðna og einnig til þess að landamærahelgi allra ríkja sé virt, þar á meðal Úkraínu.
„Ekkert ríki á að geta gefið fyrirmæli um skipan alþjóðamála,“ segir Xi í grein sinni í rússneska blaðinu. „Kínverjar hafa ávallt staðið vörð um hlutlæga afstöðu og óhlutdræga þar sem tekið er tillit til rótar vandans og hvatt á virkan hátt til friðarviðræðna.“
Margir á Vesturlöndum telja þessa kínversku afstöðu hálfvolga og í henni felist í raun þögull stuðningur Kínverja við innrás Rússa. Það sé þess vegna ekki unnt að búast við því að hástemmdar yfirlýsingar kínverskra stjórnvalda um frið skili nokkrum raunhæfum niðurstöðum á næstunni.
Áður en Xi lagði af stað til Rússlands gaf Bandaríkjastjórn til kynna að hún styddi ekki tilmæli Kínaforseta um vopnahlé, það yrði aðeins til að treysta yfirráð Rússa á því landi sem þeir hafa hernumið í Úkraínu. Þá er dregið í efa að tengslin milli stjórna Kína og Rússlands séu í raun þess eðlis að Xi fái nokkru um það ráðið hvað Rússar geri í Úkraínu.
Forsetar Kína og Rússlands hittast „óformlega“ á tveggja manna fundi fyrir kvöldverð mánudaginn 20. mars. Á þriðjudaginn verða formlegar viðræður og skrifað undir sameiginleg skjöl.