Home / Fréttir / XI segist aldrei útiloka valdbeitingu gegn Tævan

XI segist aldrei útiloka valdbeitingu gegn Tævan

Xi Jinping á meðal kínverskra flokksbrodda.

Xi Jinping Kínaforseti (69 ára) setti 20. þing Kommúnistaflokks Kína sunnudaginn 20. október. Í setningarræðunni sagði hann að Kínastjórn útiloki ekki valdbeitingu gagnvart Tævan, sjálfstæðri eyju undan strönd Kína sem ráðamenn í Peking telja hluta Kína.

„Við höldum fast við þann ásetning að sameina að nýju [Kína og Tævan] á friðsamlegan hátt, í fyllstu einlægni og af ofurkrafti. Við höfum á hinn bóginn ekki fallið frá því að beita til þess valdi og við áskiljum okkur rétt til að grípa til allra nauðsynlegra ráða.“

Forsetinn bætti við að „lausn Tævan-málsins“ væri í höndum Kínverja sjálfra:

„Söguleg hjól þjóðlegrar endursameiningar og þjóðlegrar endurnýjunar snúast áfram, endursameining verður að nást og endursameining mun örugglega nást.“

Vegna þess sem Xi sagði gáfu stjórnvöld á Tævan út yfirlýsingu um að þau mundu ekki afsala sér fullveldi eða gefa neitt eftir varðandi frelsi og lýðræði. Af forsetaskrifstofunni í Tæpai, höfuðborg Tævans, var lögð áhersla á að báðir aðilar bæru ábyrgð á að varðveita frið og stöðugleika á Tævan-sundi og svæðinu í heild, hafna bæri allri valdbeitingu.

Kínaher efldur

Xi hvatti til þess í ræðu sinni að Kínaher yrði efldur. Hann sagði að endurnýjun kínversku þjóðarinnar héldist í hendur við hraðari hernaðarlegan og tæknilegan vöxt.

Miklu skipti að Frelsisher kínverskrar alþýðu, hernaðarlegt tæki kommúnistaflokksins, gætti „virðingar og grundvallarhagsmuna Kína“. Nefndi hann í því sambandi ýmsar hafréttarlegar deilur með aðild kínverska flotans og önnur mál sem kalla á réttmæta valdbeitingu að mati kínverskra valdhafa.

Minnt er á að Kínverjar deila um yfirráð á hafsvæðum og eyjum við Japani og ríki í Suðaustur-Asíu auk þess að eiga í landamæradeilum við Indverja.

Lof á kommúnistaflokkinn

Í setningarræðu sinni fór Xi lofsamlegum orðum um Kommúnistaflokk Kína.

Hann sagði flokkinn tryggja samfélagslegan stöðugleika, skapa þjóðaröryggi, vernda mannslíf og hafa stjórn á ástandinu í Hong Kong. Þar var hart sótt að stjórnvöldum í mótmælaaðgerðum árið 2019.

Xi sagði flokkinn einnig hafa „sigrað í mesta stríði mannkynssögunnar við fátækt“. Undir hans forystu hefði áherslan beinst sameiginlegri farsæld allra. Nú væri markmið stjórnvalda að hraða aðgerðum í húsnæðismálum og efla jafna kjaradreifingu. Sé hefði tekist að „fjarlægja alvarlegar, leyndar hættur innan flokksins“.

Xi fór lofsamlegum orðum um núll-stefnu stjórnvalda vegna COVID-19 faraldursins og svaraði gagnrýni á hana með þeim orðum að í krafti hennar hefði líf fólks og heilsa notið þeirrar verndar sem best væri. Núll-stefnan fól meðal annars í sér að skipa fólki að halda sig innan dyra á heimilum sínum vikum saman og banna öll venjuleg samskipti eða borgarlíf. Var henni mótmælt opinberlega með borða á brú í Peking fimmtudaginn 13. október.

Xi sagði að í landinu hefði náðst mikilvægur, jákvæður árangur með heildaraðgerðum til að hindra útbreiðslu faraldursins og hafa hemil á honum. Hann fór engum orðum um hve lengi enn yrði fylgt strangri stefnu í sóttvarnamálum.

Forsetinn vék einnig að fækkun fæðinga í Kína og sagði að tekið yrði á því máli í því skyni að ýta undir barnsfæðingar samhliða því sem gerðar yrðu ráðstafanir til að létta undir með eldri borgurum.

Þá benti forsetinn á að hve vel Kínverjum hefði tekist vel að glíma við umhverfisvandamál. Hann hét því að áfram yrði unnið að „orkubyltingu“.

Flokksþingsfulltrúar í Peking 16. október 2022.

Þriðja kjörtímabilið

Xi hefur nú verið aðalritari kínverska kommúnistaflokksins í tvö kjörtímabil, það er 10 ár. Eftir að Maó flokksformaður féll frá á áttunda áratugnum varð þegjandi samkomulag um að enginn ætti að leiða flokkinn lengur en tvö kjörtímabil.

Xí ýtti því til hliðar og sækist nú eftir að sitja þriðja kjörtímabilið sem aðalritari og formaður miðlæga hernaðarlega ráðsins.

Xi er einnig forseti Kína. Stjórnarskránni var breytt að Maó gengnum og mælt fyrir tveggja kjörtímabila reglu um forsetann. Árið 2018 beitti Xi sér fyrir afnámi reglunnar. Hann getur því setið sem forseti um ótakmarkaðan tíma.

Í lok þingsins um næstu helgi mun Xi tilkynna hvaða sjö einstaklinga hann hefur með sér í æðstu flokksstjórninni, politburo, stjórnmálaráðinu. Þá tilkynnir hann einnig hvern hann velur sem forsætisráðherra.

Um 2.3000 manns sækja flokksþingið sem haldið er í þjóðarhöllinni miklu við Torg hins himneska friðar í hjarta Peking. Öryggisgæsla er gífurleg vegna þingsins og svæðið umhverfis þinghöllina lokað fyrir annarri umferð en lögregla heimilar.

Engin almenn umferð bifreiða er heimiluð. Óbreyttir flokksþingsmenn, starfslið þingsins og blaðamenn koma saman á ákveðnum stöðum fjarri þinghöllinni og er fólkið flutt að henni í sérvöldum bifreiðum sem lúta nákvæmu öryggiseftirliti.

Í þingsalnum sitja flokksbroddar á sviði og snúa sér að almennum þingfulltrúum yfir sviðinu hanga hamar og sigð, flokksmerkið. Á einum borða í salnum stendur: Lengi lifi mikill, dýrlegur og réttsýnn Kommúnistaflokkur Kína.

 

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …