Home / Fréttir / Xi glímir við efnahagsvanda heima og erlendis

Xi glímir við efnahagsvanda heima og erlendis

Xi Jiping Kínaforseti
Xi Jiping Kínaforseti

Fjarað hefur undan fjárfestingaverkefni Kínastjórnar, belti-og-braut (BOB), vegna COVID-19-faraldursins. Kínversk yfirvöld takast nú á við efnahagsvanda á heimavelli og mörg ríkjanna sem tóku þátt í BOB-verkefninu hafa ekki lengur burði til að standa við skuldbindingar sínar. Val Kínverja stendur á milli þess að bjarga eigin efnahag eða gefa eftir skuldir samstarfsríkjanna með nýjum lánskjarasamningum.

Xi Jinping Kínaforseti hratt BOB af stað árið 2013 til að tengja saman samgöngur og viðskipti ríkja í Asíu, Evrópu og Afríku. Nú hafa Kínverjar fjárfest fyrir meira en 450 milljarða í tæplega 140 löndum Asíu, Evrópu, Suður-Ameríku og Afríku. Kínverjar lána fjármuni til að leggja brautarteina, vegi og til að gera hafnir og verksmiðjur. Markmiðið er að skapa starfsvettvang fyrir kínversk fyrirtæki.

Um miðjan apríl sendi ríkisstjórn Pakistans opinbert bréf til Kínastjórnar og óskaði eftir að skilmálar vegna 100 milljón dollara afborgunar í maí yrðu endurskoðaðir. Kínastjórn svaraði 17. maí og sagðist ætla að líta á málið fyrir „vin sinn Pakistan“. Síðan gerðist ekkert meira.

„Okkur skilst að mörg ríki vilji semja um ný kjör á þessum lánum; ferlið mun taka sinn tíma,“ sagði sérfræðingur við Þróunarbanka Kína sem hefur farið fyrir lánveitendum vegna BOB við The Financial Times. Hann tók fram að hér væri um lán en ekki þróunaraðstoð að ræða og Kínverjar yrðu að njóta að minnsta kosti hóflegra vaxta af lánum sínum.

Flest tilmælin um ný lánskjör koma frá Afríkuríkjum sem standa höllum fæti að sögn The New York Times 18. maí.

Sérfræðingar segja að kínversk stjórnvöld geti varla neitað að semja um ný lánskjör vilji þau gæta alþjóðlegrar stöðu sinnar. Á hinn bóginn yrði mjög dýrt fyrir þau að fara til dæmis sömu leið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem hefur lengt í lánum eða jafnvel afskrifað þau hjá 25 fátækustu aðildarlöndunum.

Sum BOB-verkefni hafa stöðvast eins og lagning járnbrautar milli Kína og Malasíu og háhraða járnbrautar í Tælandi.

Allt skapar þetta vanda fyrir Xi sem hefur sætt gagnrýni á heimavelli og annars staðar fyrir skort á gagnsæi vegna BOB-lána. Í sumum tilvikum þykir óljóst hver sé í raun hagur samstarfsríkja af þessum viðskiptum við Kínverja. Vegna þessarar gagnrýni neyddist Xi til að endurskilgreina og opna BOB-verkefnið meira á árinu 2019 svo það félli betur að alþjóðareglum um ríkisaðstoð. XI verður að sýna að BOB skili Kínverjum einhverju í aðra hönd, COVID-19 gerir honum það enn erfiðara en áður.

Kínverska stjórnin sætir nú harðri gagnrýni frá Bandaríkjastjórn og fleirum vegna þess hvernig hún hefur haldið á COVID-19. Þessi gagrýni hefur hljómgrunn víða og kann að leiða til þess að stjórnir ýmissa landa endurskoði BOB-samstarf sitt við Kínastjórn eða hafni því alfarið.

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …