Home / Fréttir / WSJ; Herða verður refsiaðgerðir gegn Pútín vegna morðsins á Litvinenko

WSJ; Herða verður refsiaðgerðir gegn Pútín vegna morðsins á Litvinenko

Andreij Lugovoy (t.v.) og Dmitríj Kovtun.
Andreij Lugovoy (t.v.) og Dmitríj Kovtun.

Um heim allan hafa verið hörð viðbrögð við skýrslu Roberts Owens, fyrrverandi yfirréttardómara í Bretlandi, um morðið á Alexander Litvinenko að undirlagi Vladimírs Pútíns og valdaklíkunnar í kringum hann. Hér er lausleg þýðing á leiðara The Wall Street Journal (WSJ ) í tilefni skýrslunnar. Hann birtist föstudaginn 22. janúar:

„Það hefur lengi verið opinbert leyndarmál að rússneskir útsendarar eitruðu fyrir Alexander Litvinenko, fyrrverandi rússneskum njósnara sem tók að gagnrýna Kremlverja, á hóteli í London í nóvember 2006. Fimmtudaginn [21. janúar] var kveðið fastar að orði í breskri rannsóknarskýrslu. „Með vísan til allrar vitneskju og greininga sem ég hef kynnt mér,“ segir Robert Owen, fyrrverandi yfirréttardómari í skýrslunni „tel ég að FSB-aðgerðin til að drepa Litvinenko hafi líklega verið samþykkt af [þáv. forstjóra FSB Nikolaj] Patrusjev og einnig Pútín forseta.“

Litvinenko, reyndur starfsmaður öryggisþjónustu Rússlands (FSB), flýði frá Rússlandi til Bretlands árið 2000 eftir að hafa skýrt opinberlega frá sönnunum um að rússneskir embættismenn misnotuðu öryggisstofnanir landsins í spilltum tilgangi. Þetta vakti reiði hjá Vladimír Pútin sem þá var forstjóri FSB en síðar æðsti leiðtoginn í Kreml.

Í útlegðinni gaf Litvinenko út bók þar sem hann sakaði rússneska leiðtogann um að hafa sett á svið sprengjuárás hryðjuverkamanna í Moskvu árið 1999 og notað hana sem átyllu til að blása nýju lífi í stríðið í Tsjetsjeníu. Einnig er líklegt að Litvinenko hafi átt samstarf við bresku leyniþjónustuna. Rússneska þingið samþykkti í júlí 2006 lög sem heimiluðu ríkisstjórninni að beina spjótum sínum að óvinum ríkisins erlendis. Skömmu síðar gekk óopinber aftökulisti frá Kreml manna á milli í Rússlandi. Nafn Litvinenkos var á þessum lista.

Fimm mánuðum síðar hitti Litvinenko Andreij Lugovoj, fyrrverandi samstarfsmann í FSB, og Dmitríj Kovtun, rússneskan kaupsýslumann sem er sagður hafa tengsl við FSB, á lúxus-hóteli í London. Litvinenko var dáinn þremur vikum síðar, hann var fórnarlamb geislavirks efnis poloníum-210. Næstum alls staðar þar sem Lugovoj og Kovtun höfðu verið mátti finna merki um poloníum, meðal annars í hótelherbergjum þeirra og flugvélarsæti. Breskir saksóknarar ákærðu Lugovoj fyrir morð. Báðir mennirnir neita allri aðild að dauða Litvinenkos og yfirvöld í Rússlandi neita að framselja þá. Lugovoj situr nú á rússneska þinginu.

Bresk yfirvöld fóru sér árum saman hægt við að hefja formlega rannsókn þótt auðveldlega hefði mátt eitra fyrir hundruðum grandalausra einstaklinga með efninu poloníum. Theresa May innanríkisráðherra viðurkenndi árið 2013 að „alþjóðasamskipti“ Breta „hefðu komið til álita við töku ákvaðana í ríkisstjórninni“. Ákveðið var sumarið 2014 að Owen hæfi rannsókn sína, nokkrum dögum eftir að aðskilnaðarsinnar skutu niður Malaysia Airlines flug 17 yfir Úkraínu.

Eftir að hafa hlýtt á vitnisburð rúmlega 60 vitna – þar af sumra í trúnaði – hefur Owen komist að því að aðgerðin um að drepa Litvinenko hefði ekki komið til framkvæmda nema með samþykki á æðstu stöðum innan rússneska ríkisins.

Ekki verður unnt að sanna efni ákærunnar endanlega nema skipt verði um stjórn í Kreml. David Cameron ætti hins vegar að líta ákæruna alvarlegum augum. Enginn breskur forsætisráðherra getur liðið erlendum stjórnarleiðtoga að nota London sem leikvöll fyrir aftökusveit sína og geislavirk vopn. Fyrsta skrefið ætti að vera að reka tafarlaust alla þekkta FSB-útsendara frá Bretlandi og Cameron ætti að hvetja evrópska leiðtoga til að herða refisaðgerðir gegn Rússum. Bretar gætu samþykkt lög í líkingu við bandarísku Magnitskíj-lögin [kennd við lögfræðing Bills Browders sem var drepinn í rússnesku fangelsi, sjá bókina Eftirlýstur], sett ferðabann og gert upptækar eigur allra sem tengjast morðinu á Litvinenko. Aldrei framar ætti að leyfa Pútín að stíga fæti sínum á breska jörð. Hafi aðgerðir af þessu tagi áhrif á fasteignamarkaðinn í Mayfair, Highgate [hverfi í London] eða annars staðar þar sem illa fenginn auður Rússa hefur skotið rótum í Bretlandi, verður að hafa það.

Pútín reynir nú að breyta ímynd sinni með því að látast vera ábyrgur þátttakandi í lausn vandamála á átakasvæðum eins og í Sýrlandi auk þess að hvetja skilningsríka evrópska stjórnmálamenn eins og Marine Le Pen í Frakklandi til að tala fyrir rússneskum hagsmunum.

Það væri einnig gagnlegt fyrir Donald Trump  að lesa skýrslu Owens. „Til að sýna Pútín fulla sanngirni, þið segið að hann drepi fólk, ég hef ekki séð það. Ég veit ekki að hann hafi gert það,“ sagði forsetaframbjóðandinn í fyrra mánuði.

Hið raunverulega eðli Pútíns og stjórnar hans var ljóst löngu fyrir dauða Litvinenkos. Skýrsla Owens er á þann veg að jafnvel Trump hefur enga afsökun til að láta eins og hann viti ekkert.“

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …