Home / Fréttir / Work boðar nýja mótvægisstefnu í varnarmálum

Work boðar nýja mótvægisstefnu í varnarmálum

Robert Work flytur erindi sitt hjæa RUSI í London,
Robert Work flytur erindi sitt hjá RUSI í London.

Hér hefur verið sagt frá ferð Roberts Works, varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, til Íslands og Noregs 7. til 9. september. Fimmtudaginn 10. september var hann í London og flutti erindi hjá Royal United Services Institute  (RUSI), samræðu- og rannsóknarvettvangi um bresk og alþjóðleg viðfangsefni á sviði varnar- og öryggismála. Þar lýsti hann aðgerðum bandaríska varnarmálaráðuneytisins til að efla fælingarmátt venjulegs herafla Bandaríkjanna.

Á fagmáli varnarmálaráðuneytisins er þetta kallað „third offset strategy“, þriðja mótvægisstefnan. Hinar tvær eru stefna frá sjötta áratugnum sem mótaðist af fælingarmætti kjarnorkuvopna og stefna frá áttunda áratugnum sem mótaðist af rannsóknum og þróun til að styrkja langdrægni bandaríska heraflans.

Þriðja mótvægisstefnan tekur mið af tæknilegum framförum undanfarinna ára þar sem þjarkar (róbotar), ofurtölvur, smátækni og 3D prentun setja svip á smíði tækja. Sagði Work að forskot Bandaríkjamanna að því er varðar „tæknilega yfirburði“ væri að minnka einkum þegar litið væri til fjarstýrða skotvopna.

Hann sagði að tvær meginástæður væru fyrir þessu. Í fyrsta lagi væru hugsanlegir keppinaautar að þróa hátæknivopn af meiri þunga en sést hefði síðan á níunda áratugnum. Í öðru lagi hefðu Bandaríkjamenn réttilega beint athygli sinni að Mið-Austurlöndum undanfarin 14 ár og síðan hefði niðurskurður útgjalda til varnarmála þrengt að fjárfestingu í nýrri tækni.

Hann minnti á breytingar á stöðunni í öryggismálum, átökin við Íslamska ríkið og spennuna í samskiptum við Rússa sem lýst hefðu Bandaríkjunum og NATO sem beinni ógnun við öryggi sitt. Af þessum sökum hefði Ash Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, ákveðið að varnarmálaráðuneytið ynni að því með bandamönnum innan NATO að móta „nýja leikjabók“ fyrir NATO til að efla fælingarmátt venjulegs vopnabúnaðar Bandaríkjanna.

Work sagði að í langan tíma hefði ekki verið hugað að áformum mjög öflugs andstæðings og hann hefði áhyggjur af að hæfnin til að samhæfa krafta og beita þeim einhuga hefði minnkað. Menn yrðu að búa sig undir að berjast á ótrúlega hættulegum nútíma-vígvelli.

Yrði Bandaríkjaher beitt myndi hann grípa til skammdrægra, fjarstýrðra skotflauga, tölvuárása og rafeindavopna. Vegna þessara tæknilegu breytinga yrði að endurskoða sjálfa grunnstefnuna eins og gert hefði verið snemma á níunda áratugnum.

Hann nefndi til sögunnar AirLand Battle 2.0 en Airland Battle var heitið á stefnunni sem mótaði rammann um verkefni Bandaríkjahers í Evrópu frá 1982 fram undri lok tíunda áratugarins. Þá sagði hann að nú væri þörf á nútímastefnu sem markaði svipuð þáttaskil og

Follow-on Forces Attack-undirstefnan gerði á sínum tíma. Í Follow on Forces Attack-stefnunni fólst að réðust Sovétmenn inn í Vestur-Þýskaland skyldi ekki látið við það sitja að verjast sóknarliðinu heldur skyldi ráðist á heraflann fyrir aftan það (Follow on Forces).

Vara-varnarmálaráðherrann minnti á að við mótun mótvægisstefnu sinnar áður hefði Bandaríkjastjórn treyst á eigið frumkvæði og framkvæmd. Þriðju mótvægisstefnan yrði hins vegar að lúta frumkvæði fyrirtækja á markaði ætti að takast að hrinda henni í framkvæmd. Þar væri um að ræða tækni við þróun og gerð þjarka, sjálfstýrð farartæki, fjarkönnunar- og miðunartækni, líftækni, smátækni, háþróðar tölvur, greiningu á ofurmagni upplýsinga og framleiðslu með aukaefnum,

Robert Work hefur verið vara-varnarmálaráðherra Bandaríkjanna síðan í febrúar 2014, árin 2009 til 2013 var hann vara-flotamálaráðherra. Hann gegndi í 27 ár störfum í landgönguliði bandaríska flotans,

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …