Home / Fréttir / Wilders segir Hollendinga boða upphaf endaloka ESB

Wilders segir Hollendinga boða upphaf endaloka ESB

 

Geert Wilders þingmaður
Geert Wilders þingmaður

Þátttakan í atkvæðagreiðslunni í Hollandi miðvikudaginn 6. apríl um hvort Hollendingar vildu að ríkisstjórnin fullgilti samvinnu- og viðskiptasamning ESB og Úkraínu var 32%. Þar með er niðurstaða atkvæðagreiðslunnar gild en þó ekki sjálfkrafa bindandi fyrir ríkisstjórnina. Alls hafnaði 61,1% kjósenda samningnum en 38,1% vildi fullgildingu samningsins.

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, segir að ríkisstjórn sín geti ekki fullgilt samninginn vegna andstöðu meirihluta kjósenda við hann. Diederik Samsom, leiðtogi hollenska Verkamannaflokksins, hins stjórnarflokksins er sömu skoðunar. Ekki sé unnt að fullgilda samninginn.

Frá framkvæmdastjórn ESB berast þær fréttir að Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnarinnar, sé „triste“ sorgmæddur vegna niðurstöðunnar í Hollandi. Hins vegar segir aðaltalsmaður framkvæmdastjórnarinnar að niðurstaðan í Hollandi raski ekki neinu í samskiptum ESB og Úkraínu. Hollenska ríkisstjórnin, sem nú situr í forsæti ráðherraráðs ESB, verði hins vegar að skýra afstöðu sína.

Hollenski þingmaðurinn Geert Wilders fagnaði niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar. Hollendingar hefðu veitt „evrópsku elítunni“ ráðningu. „Þetta er upphaf endaloka ESB,“ sagði hann á Twitter.

Hvatamenn atkvæðagreiðslunnar fögnuðu niðurstöðunni. Thierry Baudet lögfræðingur frá samtökunum Lýðræðisvettvangi sagði að ekki yrði gengið fram hjá niðurstöðunni og nú hæfust viðræður um „annars konar ESB“. Andstæðingar samningsins fór ekki leynt með þá skoðun að greidd væru atkvæði gegn „ólýðræðislegu ESB“ og „útþensluþörf“ þess. Baudet boðaði fleiri atkvæðagreiðslur um „evruna og opin landamæri“.

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …