
Julian Assange sem stóð að því að vefsíðan WikiLeaks kom til sögunnar var tekinn höndum fimmtudaginn 11. apríl í sendiráði Ekvador í London. Þar hafði hann dvalist síðan 2012 sem pólitískur hælisleitandi eftir að hann tapaði framsalsmáli fyrir breskum dómstóli. Taldi dómari að framselja ætti Assange til Svíþjóðar þar sem hann sætti ákærum fyrir nauðgun og kynferðislegt ofbeldi.
Í Svíþjóð velta yfirvöld fyrir sér hvort endurvekja eigi framsalskröfuna vegna nauðgunarinnar. Í Bandaríkjunum liggur fyrir ákæra gegn Assange fyrir tölvustuld á trúnaðarskjölum. Í Bretlandi er sótt mál gegn honum fyrir að skjóta sér undan framsali og framkvæmd dóms um það með því að leita hælis í sendiráði Ekvador. Forseti Ekvador ákvað að skjóta ekki lengur skjólshúsi yfir Assange, lögreglan í London gæti handtekið hann, væri vilji til þess.
Pólitískt deilumál
Nú hafa áform um að framselja Assange breyst í pólitískt deilumál í Bretlandi. Diane Abbott, skugga-innanríkisráðherra Verkamannaflokksins, virðist gera lítið úr nauðgunarákærunni á hendur Assange. Hún sagði föstudaginn 12. apríl í útvarpsviðtali:
„Við vitum öll um hvað þetta snýst. Ekki ásakanirnar um nauðgun, þótt alvarlegar séu. Þetta snýst um WikiLeaks og allar óþægilegu upplýsingarnar um athafnir bandaríska hersins og öryggissveitanna.“
Þegar Abbott var spurð sérstaklega um nauðgunarákæruna gegn Assange sagði hún „sakirnar komu aldrei fram […] Þetta snýst ekki um nauðgunarákæruna.“
Ummæli Abbott mæltust illa fyrir meðal þingmanna. Þau féllu aðeins nokkrum klukkustundum efir að Jeremy Corbyn, fomaður Verkamannaflokksins, hvatti ríkisstjórnina til að leggjast gegn framsali Assange til Bandaríkjanna.

Þingmenn sökuðu Abbott um að líta fram hjá þeim sem hefðu kært Assange á sínum tíma. Þingmaður Verkamannaflokksins, Jess Phillips, sem á sæti í nefnd þingsins um málefni kvenna og jafnrétti sagði á Twitter: „Að Assange hefur í sjö ár komist hjá því að svara til saka vegna ákæru um kynferðisbrot og brotið gegn [breskum] dómsúrskurði ætti að sæta andstöðu Verkamannaflokksins.“
Falconer lávarður, fyrrv. dómsmálaráðherra, talaði einnig gegn stefnu Verkamannaflokksins þegar hann sagði það í höndum sakadómara að taka ákvörðun um framsal en ekki ríkisstjórnarinnar. Hún hefði ekki átt annarra kosta völ en heimila handtöku Assange eftir að forseti Ekvador opnaði dyr sendiráðs landsins fyrir lögreglunni.
Jeremy Corbyn sagði á Twitter fimmtudaginn 11. apríl: „Breska ríkisstjórnin ætti að andmæla framsali á Julian Assange til Bandaríkjanna fyrir að hafa ljóstrað upp um grimmdarverk í Írak og Afganistan.“
Ákæra í Bandaríkjunum
Bandaríska utanríkisráðuneytið hefur ákært Assange fyrir samsæri gegn Bandaríkjunum með því að brjótast inn í tölvukerfi bandarískra stjórnvalda til að nálgast trúnaðarskjöl.
Þessa ákæru var að finna í innsigluðu skjali sem lagt var fyrir dómara í Virginíu-ríki í mars 2018. Innsiglið var rofið miðvikudaginn 10. apríl, sama dag og Assange var tekinn fastur. Þar er ekki að finna beina ákæru á hendur Assange fyrir að birta efni trúnaðarskjalanna.
Vitnað er í fræðimenn í lögum sem segja skynsamlegt af Bandaríkjastjórn að ákæra Assange aðeins fyrir samsæri um að brjótast inn í opinber tölvukerfi. Hefði ákæran verið víðtækari og náð til birtingar skjala hefði að margra dómi mátt líta á hana sem aðför birtingarfrelsi fjölmiðla sem er varið í stjórnarskránni.
Í ákærunni er lýst hvernig Assange á að hafa átt samskipti við samverkamenn sína og þar með Chelsea Manning sem mataði Assange á trúnaðarskjölum sem hann komst yfir í störfum sínum í Bandaríkjaher. Þeir ræddu saman á netinu og skjöl voru send á milli með því að nota nettengt geymsluhólf.