Home / Fréttir / WHO-sérfræðingur andmælir stöðvun efnahags- og atvinnulífs vegna COVID-19

WHO-sérfræðingur andmælir stöðvun efnahags- og atvinnulífs vegna COVID-19

Dr. David Nabarro
Dr. David Nabarro

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur kúvent og horfið frá upphaflegri COVID-19-bannstefnu sinni og hvatt ráðmenn heims til að afnema bannreglur innan landa sinna og stöðvun atvinnu- og efnahagslífs.

Dr. David Nabarro hjá WHO beindi máli sínu til stjórnvalda um heim allan  þegar hann hvatti þá til að hætta „að beita banni sem helsta stjórntækinu“ gegn kórónuveirunni.

Hann sagði að aðeins væri unnt að ýta undir fátækt með bönnum – hann minntist ekki á björgun mannslífa.

„Bönn hafa aðeins eina afleiðingu sem aldrei má sýna óvirðingu: að gera fátækt fólk miklu fátækari,“ sagði hann.

„Við hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni mælum ekki með bönnum sem helsta stjórntækinu gegn þessari veiru,“ sagði Nabarro við The Spectator, fimmtudaginn 8. október

„Við teljum að aðeins sé unnt að réttlæta bann (e. lockdown) til að kaupa tíma í því skyni að endurskipuleggja, endurraða og endurjafna það sem er nauðsynlegt til verndar þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem eru úrvinda en á heildina litið erum við frekar andvígir því.“

Þegar Nabarro gagnrýnir bönnin lítur hann einkum á áhrif þeirra á heimsbúskapinn og hann lýsir slæmum áhrifum þeirra veik hagkerfi.

„Kynnið ykkur bara hvernig fór fyrir ferðaiðnaðinum á Karíbahafi eða á Kyrrahafi eftir að fólk hætti að fara í frí,“ sagði hann. „Kynnið ykkur afdrif smábænda um heim allan … Kynnið ykkur fjölda fátækra. Það lítur út fyrir að fátækt í heiminum tvöfaldast á næsta ári. Svo virðist sem vannæring barna tvöfaldist að minnsta kosti.“

Bennt er á bannið í Melbourne í Ástralíu sem er eitt strangasta í heimi og varað hefur lengst. Í Madrid á Spáni var bannið svo strangt í mars að fólki var bannað að yfirgefa íbúð sína nema til að viðra gæludýr sitt. Í Kína var útihurðum íbúða lokað með logsugutækjum til að fólk gæti ekki farið að heima. Innan WHO telja menn að þetta hafi almennt verið ónauðsynlegt.

Nú boðar Nabarro nýja aðferð til að halda veirunni í skefjum. Hann vill að stjórnvöld þrói betri leiðir en boð og bönn til að takast á við veiruna. „Vinnið saman, lærið hver af öðrum,“ sagði hann.

Í fréttum fjölmiðla um þennan nýja boðskap frá WHO segir að hann falli að því sem segir í nýlegri yfirlýsingu sem fjöldi lækna og annarra hefur ritað undir, Great Barrington-yfirlýsingunni.

Á netinu er unnt að rita undir þessa yfirlýsingu sem kennd er við Great Barrington, bæ í Massachusetts-ríki í Bandaríkjunum. Hún varð til í bænum laugardaginn 3. október 2020 í málstofu hugveitunnar American Institute for Economic Research. Síðan hafa þúsundir lækna, heilbrigðisstarfsmanna og almennra borgara ritað undir yfirlýsingu um markvissa vernd í stað alhliða hafta gegn COVID-19-faraldrinum.

Í yfirlýsingunni er lýst „þungum áhyggjum“ af því að sú stefna sem nú ráði í baráttunni gegn COVID-19-faraldrinum valdi líkamlegum og geðrænum skaða. Í yfirlýsingunni segir að núverandi stefna hafi hörmulegar afleiðingar bæði til skemmri og lengri tíma: bólusetningum barna fækki; hjartasjúkdómar versni; krabbameinsskoðunum fækki og geðræn heilsa versni. Dauðsföllum fjölgi því umfram það sem þyrfti að vera á komandi árum og þyngstu byrðarnar leggist á verkafólk og yngsta fólk samfélagsins. Það sé alvarlegt óréttlæti að halda námsmönnum utan skóla.

Leyfa eigi þeim sem búa við minnstu hættuna að lifa eðlilegu lífi og byggja upp ónæmi gagnvart veirunni með náttúrulegu smiti á sama tíma og þeir sem eru varnarlausir njóti verndar. Þetta sé markviss vernd.

Í þessu skyni þurfi að huga sérstaklega vel að smitvörnum hjá starfsfólki hjúkrunarheimila. Eftirlaunaþegar í heimahúsum eigi að fá dagvörur sendar heim til sín. Þeir eigi, sé þess kostur, helst að hitta fjölskyldur sínar utan dyra, Það sé unnt að setja um þetta framkvæmanlegar reglur, þekking til þess sé fyrir hendi hjá heilbrigðisstarfsfólki.

Dr. David Naborro fer vinsamlegum orðum um Great Barrington-yfirlýsinguna og segir hana skipta miklu máli.

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …