Home / Fréttir / Whelan segir sig dæmdan í sýndarréttarhöldum

Whelan segir sig dæmdan í sýndarréttarhöldum

Paul Whelan mótmælir í réttarsalnum í Moskvu.
Paul Whelan mótmælir í réttarsalnum í Moskvu.

Bandaríkjamaðurinn Paul Whelan, fyrrverandi landgönguliði, var mánudaginn 15. júní dæmdur í 16 ára fangelsi í Rússlandi fyrir njósnir. Hann hefur setið í varðhaldi frá því í desember 2018.

Þegar dómsorðið var lesið stóð Whelan í réttarsalnum með spjald þar sem stóð: Sýndarréttarhöld! og hvatti Bandaríkjaforseta til að láta sig málið varða.

Við handtökuna 2018 var Paul Whelan (50 ára) sakaður um að reyna að nálgast ríkisleyndarmál. Málaferlin gegn honum hafa verið fyrir luktum dyrum.

John Sullivan, sendiherra Bandaríkjanna í Moskvu, segir að Whelan hafi ekki notið hlutlausrar málsmeðferðar og málavextir hafi ekki verið kynntir til fullnustu. „Þetta var gert með leynd, engar sannanir voru birtar, verjandi fékk ekki að kalla á nein vitni,“ sagð Rebecca Ross, upplýsingafulltrúi sendiráðsins, á Twitter.

Paul Whelan er að sögn BBC með fjórfaldan ríkisborgararétt í Bandaríkjunum, Kanada, Bretlandi og Írska lýðveldinu. Hann er frá Novi í Michigan-ríki í Bandaríkjunum, fæddur í Kanada, sonur breskra foreldra, fluttist sem barn til Bandaríkjanna.

Hann gekk til liðs við bandaríska vara-landgönguliðið árið 1994, sagður hafa orðið lögreglumaður í Michigan um sex árum síðar.

Hann gegndi tvisvar þjónustu í Írak, árið 2004 og 2006. Á meðan hann var í landgönguliðinu fór hann í fyrsta sinn til Rússlands og heimsótti landið oft eftir það. Í desember 2018 var hann tekinn fastur í hótelherbergi í miðborg Moskvu.

Hann segist hafa verið að búa sig til að fara í brúðkaup þegar gamall kunningi hans hafi óvænt komið í heimsókn til sín. Nokkrum andartökum síðar birtust öryggislögreglumenn og handtóku hann fyrir að hafa tekið við ríkisleyndarmálum.

Kunningi Whelans hafði látið hann hafa tölvukubb og hélt Whelan að þar væri að finna sumarleyfismyndir en lögreglan sagði um ríkisleyndarmál að ræða.

Strax eftir að dómur féll mánudaginn 15. júní birti fjölskylda Whelans yfirlýsingu um að rússneska réttarkerfið væri „sekt um óréttlæti“. Rússneskir dómarar væru ekki sjálfstæðir heldur hluti af stjórnmálakerfi landsins.

Rússneski saksóknarinnar sagði að Whelan væri „að minnsta kosti ofursti“ hjá njósnastofnun Bandaríkjanna. Eftir að Whelan hætti sem landgönguliði varð hann alþjóðlegur öryggisfulltrúi bandarísks bílahlutafyrirtækis.

Fjölskylda Whelans segir að hann hafi sætt harðræði í fangavistinni og ekki notið nægilegrar læknismeðferðar.

Í maí gekk Whelan undir bráðaaðgerð í sjúkrahúsi í Moskvu. Þá sagði Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á Twitter óviðunandi Paul Whelan hefði ekki fengið nægilega læknishjálp fyrr en líðan hans varð óbærileg. Hann krafðist þess að Whelan yrði látinn laus.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …