
I
Öldungadeild Bandaríkjaþings verður að samþykkja að Rex Tillerson, forstjóri olíurisans Exxons, verði næsti utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Tillerson sætir gagnrýni þingmanna repúblíkana fyrir að standa of nærri Rússum og Vladimír Pútín, forseta þeirra. Gagnrýnisaugum er einnig beint að því að hann hafi nýtt sér Bahama-eyjar til að vernda sig gegn bandarískum sköttum vegna fyrstu viðskipta sinna við Rússa.
Frá árinu 1998 stýrði Tillerson Exxon Neftegas Ltd., dótturfyrirtæki alþjóðafyrirtækisins Exxons. Neftegas var stofnað vegna Rússlandsviðskiptanna. Nafn hans er skráð á skjal sem finna má í firmaskránni á Bahama-eyjum. Það er meðal milljóna skjala sem Süddeutsche Zeitung hefur í fórum sínum og kallast Bahamas Leaks. Tillerson stjórnaði Neftegas til að minnsta kosti maí 2001. Það stóð meðal annars að Sakhalin 1 verkefninu við austurströnd Rússlands. Nú er spurt: Hvers vegna var ákveðið að skrá fyrirtækið í Nassau, höfuðborg Bahama-eyja?
Bahama-eyjar eru óskastaður fyrir skuggaviðskipti og þar þurfa fyrirtæki ekki að greiða tekjuskatt. Exxon skýrir ákvörðunina um skráningu í Nassau með vísan til þess hve regluverkið sé einfalt þar. Hana megi ekki rekja til viðleitni til að komast hjá skattgreiðslum í landinu þar sem fyrirtækið starfar.
Exxon Neftegas er einnig tengt rússneska olíufélaginu Rosneft. Eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga er Rosnefnt í viðskiptabanni hjá ESB og Bandaríkjastjórn. Ríkisstjórn Obama hefur einnig sett bann á Igor Setjsín, forstjóra Rosneft. Hann er sagður áhrifamikill innan Kremlar og er fyrrverandi KGB-maður eins og Pútín.
Eftir að Tillerson var tilnefndur sem næsti utanríkisráðherra Bandaríkjanna hafa tengsl hans við Setsjín vakið óhug meðal þingmanna demókrata og repúblíkana í Washington. Ekki er aðeins litið á þá sem viðskiptafélaga heldur einnig sem vini. Sumir fréttaskýrendur telja að sem forseti muni Donald Trump aflétta þvingunum af Rússum. Þar með stæði ekkert í vegi fyrir náinni samvinnu við Rússa um leit og vinnslu á olíu í Norður-Íshafi sem gæti hækkað verð á hlutabréfum í Exxon Mobil. Einn sem mundi hagnast á því er Rex Tillerson. Skjöl fyrirtækisins sýna að hann sé skráður fyrir rúmlega 218 milljón dollara hlutabréfaeign í því.
Heimild: bazonline.ch