
Donald Trump Bandaríkjaforseti er sjálfur til rannsóknar hjá Robert Mueller, sérstökum saksóknara, sem rannsakar hvort Rússar hafi hlutast til um kosningarnar í Bandaríkjunum á árinu 2016. Frá þessu var fyrst skýrt í The Washington Post miðvikudaginn 14. júní. Fimmtudaginn 15. júní birtust fréttir um sama efni í The New York Times (NYT) og The Wall Street Journal. Öll blöðin hafa eigin heimildarmenn fyrir fréttunum.
Trump staðfesti í raun að fréttirnar væru efnislega réttar þegar hann sagði á Twitter að morgni fimmtudags 15. júní: „Þið eruð vitni að allra mestu NORNAVEIÐUM í amerískri stjórnmálasögu – undir forystu ýmissa vondra og truflaðra einstaklinga.“
Robert Mueller safnar gögnum með rannsókn sinni. Það kæmi í hlut Bandaríkjaþings að ákæra forsetann fyrir lögbrot. Flokksbræður hans meðal repúblíkana hafa meirihluta í báðum deildum þingsins.
Robert Mueller hefur óskað eftir samtölum við þrjá háttsetta núverandi og fyrrverandi forstöðumenn leyniþjónustustofnana. Heimildarmaður The New York Times (NYT) sem þekkir til rannsóknarinnar telur þetta benda til að Mueller rannsaki hvort Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar.
Sérstaki saksóknarinn vill leggja spurningar fyrir Dan Coats, sem nú er æðsti yfirmaður njósnamála í Bandaríkjunum, Michael S. Rogers, yfirmann Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna (NSA), og Richard Ledgett, fyrrverandi vara-forstjóra NSA.
Enginn þessara manna tók þátt í kosningabaráttu Trumps. Nýlega hafa hins vegar vaknað spurningar, segir NYT, um hvort Trump hafi leitað aðstoðar þessara manna við tilraunir sínar til að fá James Comey, þáv. forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, til að hætta rannsókn sinni á Michael Flynn, fyrrv. þjóðaröryggisráðgjafa Trumps. Í fyrri viku neituðu Coats og Rogers að svara spurningum um málið á fundi þingnefndar.
Starfsmenn Muellers hafa einnig óskað eftir öllum gögnum frá NSA um samskipti stofnunarinnar við skrifstofu forsetans vegna Rússa-rannsóknarinnar.
Lausafregnir hafa verið á sveimi undanfarna daga um að Trump hafi íhugað að reka Mueller en aðstoðarmenn hans hefðu fengið hann ofan af því. Beinist rannsóknin að forsetanum sjálfum verður erfiðara en ella fyrir hann að hrófla við Mueller.
NYT segir að söfnun FBI á upplýsingum um hugsanlegt afbrot jafngildi ekki endilega að saksóknarar telji ástæðu til að safna efni í ákæru gegn forsetanum. Á fyrstu stigum rannsóknar vilji FBI-menn eðlilega safna öllum upplýsingum til að leggja mat á þær.
James Comey sagði á fundi með nefnd öldungadeildarinnar að hann hefði ákveðið að leka upplýsingum um fundi sína og samtöl við Trump til að koma því til leiðar að sérstakur saksóknari yrði skipaður eftir að honum sjálfum var vikið úr embætti forstjóra FBI.
Comey sagði að Mueller hefði aðgang að minnisblaði sínu um samskiptin við Trump og fleiri gögnum sem eru tengd samskiptunum. Lögfræðingur Trumps sagði að Comey hefði gerst sekur um lögbrot með miðlun þessara upplýsinga.
Þegar Comey svaraði eiðsvarinn spurningum öldungadeildarþingmanna sagði hann að Trump hefði ekki sjálfur verið til rannsóknar undir sinni stjórn á FBI. Trump og menn hans töldu þetta sýna að forsetinn sætti ómaklegum árásum í fjölmiðlum. Nú hefur þetta breyst og forsetinn grípur að nýju til þess að segjast verða að verjast mestu nornaveiðum í amerískri stjórnmálasögu.
Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur sagt sig frá öllu varðandi Rússa-rannsóknina enda beinist hún að hluta að honum sjálfum. Rod J. Rosenstein, vara-dómsmálaráðherra, skipaði Mueller sem sérstakan saksóknara í maí 2017. Hann var skipaður til að rannsaka hvort menn úr kosningastjórn Trumps eða tengdir kosningabaráttu hans hefðu átt í leynimakki með útsendurum Rússa til að hafa áhrif á úrslit forsetakosninganna. Mueller tók við sakamálarannsókn á Flynn og á Paul Manafort sem var á sínum tíma formaður kosningastjórnar Trumps. Hann fékk einnig umboð til að rannsaka hvort reynt væri að hindra framgang réttvísinnar.
Rod J. Rosenstein hefur ekki sagt hvað varð nákvæmlega til þess að hann skipaði Mueller sem sérstakan saksóknara. Hann tók ákvörðun um það eftir að The New York Times birti frásögn af fundi sem Comey átti með Trump forseta í forsetaskrifstofu Hvíta hússins í febrúar 2017. Á fundinum vék Trump orðum að Flynn og sagði við Comey: „Ég vona að þú getir sleppt þessu,“ sé að marka minnisblað Comeys. Hann sagði við þingnefndina að hann hefði litið á þetta sem skýr fyrirmæli forsetans um að rannsókninni skyldi hætt.
Háttsettur embættismaður sagði við NYT að rannsókn Muellers snerist um að félagar Trumps kynnu að hafa stundað peningaþvætti. Samvinna af einhverju tagi við Rússa hafi tengst einhvers konar peningagreiðslu og leitast hefði verið við að fela greiðslurnar, líklega með því að nota aflandsbanka.