Home / Fréttir / Washington Post sakar Trump um aðgerðarleysi gegn netárásum Rússa

Washington Post sakar Trump um aðgerðarleysi gegn netárásum Rússa

Donald Trump og Vladimir Pútín.
Donald Trump og Vladimir Pútín.

Fréttir frá Bandaríkjunum sunnudaginn 17. desember voru á þann veg að Donald Trump Bandaríkjaforseti kynni að reka sérstaka saksóknarann sem rannsakar íhlutun Rússa í bandarísku kosningarnar árið 2016. Geri forsetinn það ekki kunni hann á annan hátt að spilla fyrir framgangi rannsóknarinnar.

Sama sunnudag birti blaðið The Washington Post leiðara þar sem Trump og stjórn hans er sökuð um að láta undir höfuð leggjast að grípa til ráðstafana til að verjast netárásum Rússa á bandaríska stjórnmálakerfið. Leiðarinn birtist hér í heild í lauslegri þýðingu:

„Ósamhljóma og oft ruglingslegu umræðurnar um Rússa-rannsókn sérstaks saksóknara, Roberts S. Muellers III, og ýmissa þingnefnda stuðla að því að draga athygli frá nokkrum mikilvægum og nánast óumdeildum staðreyndum: að ríkisstjórn Vladimirs Pútíns hafði afskipti af kosningunum árið 2016 í þeim tilgangi að vega að bandarísku lýðræði; að hún mun nær örugglega reyna að gera þetta aftur; og og ekki hefur verið gripið til neinna markvissra aðgerða til að verja landið gegn þessari þjóðaröryggishættu.

Við segjum „nánast óumdeildu“ vegna þess að helsti andmælandi þessarar samstöðu, sem sameinar bandarískar leyniþjónustustofnanir og stóran hluta þingmanna beggja flokka, er Trump forseti ­– hann hafnar áfram afdráttarlausri sönnunum um aðgerðir Rússa sem sérhæfðir bandarískir leyniþjónustumenn hafa safnað auk þess að koma í veg fyrir að ríkisstjórn hans og starfslið svari þeim.

Ítarleg frásögn sem blaðamenn Post, Greg Miller, Greg Jaffe og Philip Rucker hefur að geyma sorgleg dæmi um vandræðin sem af þessu hefur leitt. Trump hefur aldrei haldið ríkisstjórnarfund um íhlutun Rússa eða um hvernig eigi að koma í veg fyrir að hún verði endurtekin. Innan þjóðaröryggisráðsins átta menn sig á því að það geti reitt forsetann til reiði að ræða hættu af hálfu Rússa. Sama gildir um starfsmenn CIA sem kynna Trump daglega trúnaðarupplýsingar; á fundum láta þeir stundum hjá líða að segja frá efni um Rússa til að „hleypa fundinum ekki upp“ svo að vitnað sé í fyrrverandi háttsettan embættismann.

Ástæðurnar fyrir afneitum Trumps eða fyrir einkennilega fleðulegri framkomu hans gagnvart Pútín á opinberum vettvangi eru óþægilega óljósar. Aðstoðarmenn hans kenna þetta við sjálfselsku, að hann neiti að sætta sig við að kosningasigur hans megi rekja til einhvers annars en hæfileika hans sjálfs. Mueller og þingnefndirnar rannsaka hvort forsetinn eða kosningastjórn hans hafi átt í leynimakki við ráðamenn í Moskvu eða hvort tengsl forsetans við Rússa geti kallað yfir hann annars konar vanda. Til þessa hafa engar afdráttalausar sannanir um slík samskipti birst.

Hvort sem það er freistnivandi eða hégómi sem ræður er ljóst að Trump grípur ekki til ráðstafana til að vernda land sitt gegn alvarlegri ógn. Grípa verður til alhliða aðgerða innan stjórnkerfisins til að aftra skaða á kosningum í framtíðinni; Michael V. Hayden, forstjóri CIA í tíð George W. Bush, líkti nauðsynlegum ráðstöfunum nú við þær sem gripið var til eftir árásirnar 11. september 2011. Rússar hafa gert netárásir á kosningakerfi margra ríkja [í Bandaríkjunum] og styrkja verður varnir þeirra; fá verður stjórnendur samfélagsmiðla til að koma upp vörnum gegn áróðri sem mokað er inn á miðlana af herjum þrjóta. Mestu skiptir að beita stjórn Pútíns svo virkri fælingu að hann sannfærist um að hann tapi meira af kosningaafskiptum en græði.

Málum er nú þveröfugt háttað eins og frásögnin í Post sýnir. Jeff Sessions dómsmálaráðherra sagði fyrir þingnefnd í október að ríkisstjórnin geri ekki aðeins of lítið til að koma í veg fyrir íhlutun Rússa heldur „getum við ekki fyllilega skilið tæknilegu hætturnar þarna úti“. Innan úr Kreml berast svo þær fréttir eftir leynilegum leiðum að Pútín telji sér hafa tekist að framkvæma eina best heppnuðu blekkingaraðgerð sögunnar, aðgerð sem er „meira en erfiðisins virði“ eins og bandarískur embættismaður orðaði það.

Trump ætlar frekar að endurvekja gott samband við Pútín en að berjast gegn hættunni sem hann neitar að trúa að sé fyrir hendi. Þetta gerir hann til að fela fyrri athafnir sínar eða til að svala sjálfselsku sinni og kallar um leið óviðunandi hættu yfir bandaríska stjórnmálakerfið.“

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …