
Vegna ákvörðunar Vladimírs Pútíns um að bjóða sig að nýju fram sem forseti – í sex ár til 2014, – birti The Washington Post leiðara miðvikudaginn 27. desember undir fyrirsögninni Vandi Pútíns kann að vera meiri en við vitum. Hann birtist hér:
Vladimír Pútin getur státað af vinsældum í skoðanakönnunum sem vestræna stjórnmálaleiðtoga, þ. á m. Donald Trump, getur aðeins dreymt um – 85% eða meira síðan Rússar réðust inn í og innlimuðu Krím árið 2014. Þrátt fyrir þetta vill Pútín ekki láta reyna að þessa tölu í raunverulegri keppni. Mánudaginn 25. desember bannaði rússneska yfirkjörstjórnin vinsælasta andstæðingi hans, Alexei Navalníj, að bjóða sig fram í forsetakosningunum sem verða 18. mars 2018 – í þessu felst að Pútín getur krækt sér í nýtt sex ára kjörtímabil án alvarlegrar andstöðu.
Navalníj hefur laðað að sér víðtækan stuðning um allt Rússland með baráttu sinni gegn spillingu. Honum var bannað bjóða sig fram vegna tilbúinna ásakana um fjársvik sem Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ógilt. Raunverulegt afbrot hans felst í því að hann vann með öðrum gegn Pútín í síðustu forsetakosningum árið 2012. Hann birti myndskeið sem sýndu saknæmt atferli Kremlverja, þar á meðal að Dmitríj Medvedev forsætisráðherra hefði sankað að sér eignum sem voru meira en eins milljarðs dollara virði. Í ár streymdu tugir þúsunda Rússa út á götur hvarvetna í Rússlandi til að hallmæla stjórnvöldum að hvatningu Navalníjs.
Þegar Navalníj bauð sig fram sem borgarstjóra í Moskvu árið 2013 fékk hann 23% atkvæða. Þriðjudaginn 26. desember höfðu 25,7 milljónir manna horft á boðskap hans gegn Medvedev á YouTube. Hvað sem þessu líður segja kunnáttumenn um stjórnmál í Moskvu að Pútín geti auðveldlega sigrað Navalníj í forsetakosningum í krafti þess að hann sé trúverðugur leiðtogi utan og innan Rússlands.
Hann ákveður engu að síður á setja á svið Pótemkín-kosningar þar sem hann tekst aðeins á við tvo eilífðar frambjóðendur, kommúnista og öfga-þjóðernissinna, auk Kesníu Sobstjak, 36 ára gamallar séð-og-heyrt-konu sem lýsir kosningunum sem „rokdýru sjónarspili“. Navalníj hefur nú hvatt til þess að kjósendur sitji heima sem kann að leiða til þess að Kremlverjar ná ekki markmiði sínu um 70% kjörsókn án kosningasvindls. Nýleg könnun sýndi að aðeins 58% ætluðu að kjósa.
Hver er skýringin á aðferðinni sem Pútín kýs þótt hún sýnist koma honum sjálfum í koll? Sumir skýrendur segja að einræðisstjórnin sem hann hefur komið á fót þarfnist ekki lýðræðislegs sigurs heldur tækifæris til að sýna afl sitt á sláandi hátt. Skilaboðin verði að sýna að ekki sé um neinn annan kost að ræða. Þetta sé einkar nauðsynlegt þegar stjórninni hafi mistekist að færa þjóðinni betri lífskjör eins og hún lofaði Rússum á sínum tíma gegn því að þeir héldu sér á mottunni. Tveggja ára samdráttur vegna lækkandi olíuverðs og vestrænna efnahagsþvingana leiðir til innan við 2% hagvaxtar í ár.
Pútín biðlar nú til almennings með þjóðernislegri ævintýramennsku eins og innrásinni í Úkraínu. Kosið verður á afmælisdegi innlimunar Krímskaga. Þar kann hann þó einnig að vera í öngstræti; tilraunir Pútíns til að ná hagstæðum samningum vegna íhlutunar í austurhluta Úkraínu og Sýrlandi eru flumbrulegar. Í stuttu máli kann að vera svo komið að Pútín hafi meiri ástæðu til að óttast Navalníj en skoðanakannanir gefa til kynna.
Pútín lætur sig muna um það eitt að gera pólitíska keppinauta sína útlæga í Rússlandi hann á enn sem fyrr síðasta orðið um tilraunir til að grafa undan og hafa áhrif á kosningar á Vesturlöndum. Í hans augum er lýðræðisleg keppni veikleiki sem ber að forðast á heimavelli en misnota erlendis. Í því ljósi hafa vestrænar ríkisstjórnir og rússneskir lýðræðissinnar sameiginlegan hag af því að snúast gegn Pútín. Báða skortir þó árangursríka strategíu.