Home / Fréttir / Washington: Mikið í húfi vegna Rússarannsóknarinnar – kosningstjóri Trumps ákærður

Washington: Mikið í húfi vegna Rússarannsóknarinnar – kosningstjóri Trumps ákærður

Psul Msnafort
Psul Msnafort

Robert Mueller, fyrirverandi forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, nú sérstakur saksóknari vegna gruns um íhlutun Rússa í kosningabaráttuna í Bandaríkjunum 2016, lagði fram fyrstu ákærur sínar á hendur mönnum í innsta hring samstarfsmanna Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, mánudaginn 30. október.

Paul Manafort, fyrrv. kosningastjóri Trumps,  og gamall samstarfsmaður Trumps, Rick Cates, voru sakaðir um ýmis brot þar á meðal peningaþvætti og samsæri um að afvegaleiða starfsmenn sérstaka saksóknarans. Kosningaráðgjafi Trumps, George Papadopoulos, játaði sig sekan um að hitta mann tengdan Rússum sem lofaði „óhróðri“ um Hillary Clinton, keppinaut Trumps, um forsetaembættið. Papadopoulos miðlar nú upplýsingum til saksóknarans.

Á vefsíðu tímaritsins Commentary sem styður að jafnaði repúblíkana, flokk Trumps, segir Noah Rothman, mánudaginn 30. október, að repúblíkanar vilji hvorki tengja þessi atvik kosningabaráttunni né ásökunum í þeirra garð um „laumuspil með Rússum“. Manafort er sakaður um ólögleg fjárhagsleg tengsl við aðila á Kýpur sem hefur á sér illt orð vegna rússneskrar fjármálaspillingar þar. Manafort er sakaður um að hafa flutt fé frá Kýpur sem komið hafi frá ónefndum einstaklingum í austurhluta Evrópu. Í ákærunni segir að Manafort hafi flutt magn af seðlum sem rekja megi beint til aðila með tengsl við Kreml. Telur Rothman það sýna að hér sé ekki komið að lokapunkti í málinu sem Mueller rannsakar.

Föstudaginn 27. október bárust þær fréttir frá starfsmönnum Muellers að von væri á ákærum á grundvelli rannsókna hans. Rothman segir að vegna þessara frétta hafi birst grein á leiðarasíðu blaðsins The Wall Street Journal um helgina þar sem Trump hefði verið hvattur til að gera illt verra með því að tilkynna almenna sakaruppgjöf fyrir alla sem kynni að vera ætlunin að sakfella á grundvelli rannsókna Muellers. Það megi líta á hana sem pólitískt hlutdræga og vitleysu frá fyrsta degi.

Rothman segir að það sé einkennileg aðferð til að skapa traust almennings í garð opinbers valds að leggja til að forsetinn berjist gegn „vitleysu“ með annarri vitleysu. Höfundar greinarinnar í The Wall Street Journal fullyrða að rannsókn Muellers hafi lent á villigötum og hann misnoti vald sitt og þeir ganga að því sem vísu að lesendur þeirra séu á sama máli.

Í Commentary segir að þetta sé ekki eina fullyrðingin í þessa veru í The Wall Street Journal áður en vitað er hvaða gögn og málsástæður Mueller hafi undir höndum. Hver er ástæðan fyrir að taka beri rannsókn Muellers af varúð að mati blaðsins? Jú, það sé hugsanlegt að FBI hafi árið 2016 byrjað að rekja þráð sem eigi upptök sín í „Steele-skýrslunni“. Hún sé að mati blaðsins „full af rússneskum upplýsingafölsunum“.

Fullyrt er að skýrslan sem var leynilega borguð af kosningasjóðum Clinton og stjórnarnefnd Demókrataflokksins kunni að hafa verið ástæðan fyrir því að James Comey, þáv. forstjóri FBI, ákvað að rannsaka kosningabaráttu Trumps. Þá er því einnig haldið fram að náið samband Muellers við Comey kunni að valda því að hann sé vanhæfur til að stjórna sérstöku rannsókninni.

Noah Rothman segir að með þessum útleggingum í The Wall Street Journal sé mikið lagt undir í óvenju mikilvægu máli. Þarna sé ýtt undir þá skoðun að um sé að ræða samsæri á æðstu stöðum innan stjórnkerfisins til að koma í veg fyrir rannsókn á raunverulegum glæpaverkum Clinton og demókrata. Kallar þetta fram hræðslu við ofsóknir hjá Trump og stuðningsmanna hans. „Vænisjúkir grípa til örþrifaráða,“ segir greinarhöfundur og lýkur hugleiðingu sinni á þann veg að til þess kunni að koma að fjölmiðlar sem styðja Trump og hann treystir verði að verja aðför hans að sérstaka saksóknaranum eða dómsmálaráðuneytinu. Enginn viti hvar það kunni að enda.

 

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …