Home / Fréttir / Wagner-málaliðar snúa til búða sinna og hætta við herför til Moskvu

Wagner-málaliðar snúa til búða sinna og hætta við herför til Moskvu

Myndin sýnir að leið inn í Moskvu var lokað til að halda aftur af Wagner-málaliðunum.

Um klukkan 17.15 að íslenskum tíma (20.15 í Moskvu) laugardaginn 24. júní sagði BBC að Alexander Luksasjenkó, einræðisherra í Belarus, hefði með samþykki Pútins gert samkomulag við Jevegeníj Prígósjín um að Wagner-málaliðar hans drægju sig í hlé. Skömmu síðar staðfesti Prígósjín að hann vildi forðast blóðbað, her sinn væri nú 200 km fyrir sunnan Moskvu, honum yrði nú snúið til baka og héldi til búða sinna

Jevgeníj Prigósjín, foringi og eigandi Wagner-málaliðanna í Rússlandi, framkvæmdi aðfaranótt laugardags 24. júní hótun sína frá deginum áður um að sækja gegn Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, og yfirstjórn rússneska hersins.

Prígósjín fór með málaliða sína til rússnesku borgarinnar Rostov við Don þar sem suðurherstjórn Rússa er. Hann segist hafa náð borginni og höfuðstöðvum hersins án andstöðu, aðgerðin hafi ekki kostað einn blóðdropa. Birtist mynd af Prígósjín með háttsettum herforingjum þar sem hann áréttaði kröfu sína um að Shoigu yrði ýtt til hliðar. Virtist ekki ríkja óvinsamlegt andrúmsloft í spjalli þeirra.

Um sama leyti og Prígósjín hitti herforingjana í Rostov við Don flutti Vladimir Pútín reiðilegt ávarp til rússnesku þjóðarinnar um vopnaða uppreisn í landinu, þeir sem að henni stæðu væru landráðamenn sem rækju rýting í bak þjóðarinnar.

Frá Rostov við Don til Moskvu er rúmlega 1000 km beinn þjóðvegur og sendi Prígosjín menn sína norður eftir honum í átt að höfuborginni. Fréttir voru um að málaliðarnir færu hratt yfir og voru þeir aðeins um 200 km frá Moskvu þegar þeir fengu fyrirmæli Prígósjíns um að snúa til baka.

Áður en fréttin um kúvendingu Wagner-málaliðanna barst hafði Sergei Sobjanin, borgarstjóri Moskvu,  sagt borgarbúum að halda sig heima vegna „erfiðs“ ástands. Hann sagðist með vísan til þess hafa ákveðið að mánudagurinn 26. júní yrði frídagur.

Dmitríj Medvedev, fyrrv. forseti og forsætisráðherra Rússlands, handlangari Pútíns í rússneska öryggisráðinu varaði laugardaginn 24. júní við því að „mesti kjarnorkuherafli“ heims lenti í höndunum á „bandítum“, það kynniað ógna tilvist mannkyns. Medvedev hefur hvað eftir annað haft uppi kjarnorkuvopnahótanir í tengslum við stríðið í Úkraínu. Nýlega gaf hann til kynna að Rússar kynnu að valda skaða á neðanasjávargrunnvirkjum til að hefna sín á þeim sem styddu Úkraínumenn.

Hann sagði að rússneskir ráðamenn mundu sjá til þess að kjarnorkuvopn sín lentu ekki í höndunum á Prígósjín og glæpahyski hans. Medvedev sagði uppreisnina vel skipulagða tilraun til að ná völdum í landinu. Hugsanlega ættu sumir fyrrverandi rússneskir úrvalshermenn aðild að henni auk erlendra samverkamanna.

Volodymyr Zelenskij Úkraínuforseti sagði að í ljós hefði komið að Vladimir Pútín væri skelfingu lostinn vegna uppreisnar Wagner-málaliðanna og hann væri „líklega einhvers staðar í felum“. Sagðist hann viss um að hann væri ekki lengur í Moskvu. Í daglegu ávarpi sínu sagði Zelenskíj:

„Í dag hefur allur heimurinn séð að rússnesk stjórnvöld hafa enga stjórn á nokkrum hlut. Alls engu. Þetta er algjör upplausn.“

Úkraínumenn sögðust hafa sótt fram í stríðinu á meðan Rússar sóttu hver gegn öðrum.

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …