Home / Fréttir / Wagner-foringi skapar spennu í Kreml

Wagner-foringi skapar spennu í Kreml

Jevgeníj Prigosjin, Waggner-foringi.

Jevgeníj Prigosjín, foringi alræmdu Wagner-málaliðanna, hefur opinberlega hafnað lykilatriðum í útlistun Kremlverja á tilefni stríðsins í Úkraínu, að sögn hugveitunnar Institute for the Study of War (ISW) í Washington. Hann hafnar því að Rússar eigi í stríði við NATO og dregur í efa að finna megi nazista í Úkraínu.

Kremlverjar hafa ítrekað réttlætt innrás sína í Úkraínu með þeim rökum að bola verði ný-nazistum úr valdastóli í Kyív og án þess að benda á nokkuð sérstakt máli sínu til stuðnings fullyrða þeir að friði og stöðugleika í Rússlandi sé ógnað af slíkum öflum.

Þá hafa Kremlverjar samhliða þessu hert á fullyrðingum um að tilvist Rússlands sé í raun í húfi vegna þess að um átök við NATO sé að ræða við rússnesku landamærin.

Prigosjín segir að Moskvuvaldið berjist „aðeins við Úkraínumenn“ sem ráði yfir tækjum frá NATO og við einhverja málaliða sem stjórnist af Rússahatri og gangi sjálfviljugir til liðs við Úkraínuher – en ekki við NATO sjálft sagði ISW fimmtudaginn 23. mars.

Hann lýsir efasemdum um markmiðin sem snúa að því að „afnazistavæða“ Úkraínu vegna óvissu um að „nazistar“ séu í landinu og „hafnar afdráttarlaust“ gamalkunnum fullyrðingum í Kreml um að Rússar verði að verjast ógn frá NATO.

„Það er fráleitt að ímynda sér“ að rússneskir embættismenn hafi ekki vitað að NATO mundi aðstoða stjórnina í Kyív, segir ISW og vitnar í Prigosjín.

Jevgeníj Prigosjín stóð áður nærri Vladimir Pútin Rússlandforseta sem bandamaður hans. Wagner-sveitir hans, mannaðar um 40.000 fyrrverandi föngum, hafa orðið sífellt sýnilegri á vígvellinum í Úkraínu og meira að segja stundum staðið uppi í hárinu á rússneska hernum.

Í mati sínu á gangi stríðsins sem birtist fimmtudaginn 23. mars sagði ISW að Prigosjin hefði „mildað málflutning sinn gegn rússneska varnarmálaráðuneytinu, væntanlega af ótta við tapa að fullu málaliðaher sínum í [orrustunni] um Bakhmut“. Gömlum saltnámubæ í austurhluta Úkraínu þar sem barist hefur verið að minnsta kosti í sjö mánuði.

Prigosjin hefur lýst áhyggjum af hugsanlegri gagnsókn Úkraínuhers og fullyrðir að 200.000 varaliðar hersins séu að skipa sér í fylkingar á austur vígstöðvunum.

ISW sagði að þessar „ýkjukenndu yfirlýsingar [væru] líklega tilraun til að tryggja meiri búnað og liðsauka frá rússneska varnarmálaráðuneytinu til að bjarga herafla hans í Bakhmut“.

Að mati vestrænna sérfræðinga hafa milli 20.000 og 30.000 rússneskir hermenn fallið eða særst í orrustunni um Bakhmut. Þeir telja að skelfileg átökin um bæinn séu í engu samræmi við lítið hernaðarlegt gildi hans.

Blóðbaðið í Bakhmut hefur á hinn bóginn fengið mikið táknrænt gildi þar sem Rússum er kappsmál að vinna þar óskoraðan sigur eftir marga ósigra sína og Úkraínumenn vilja sýna vestrænum stuðningsríkjum sínum að þeir haldi sínu.

Sagt var frá því að sunnudaginn 19. mars hefðu Wagner-málaliðar drepið níu kínverska gullnámumenn í Mið-Afríkulýðveldinu. Fréttaskýrendur sögðu að skoða ætti morðin ljósi illindanna milli manna á æðstu stöðum í Moskvu. Að rússneskir málaliðar hefðu drepið níu Kínverja daginn fyrir komu Kínaforseta í opinbera heimsókn til Moskvu hefði ekki fallið í góðan jarðveg í Kreml.

Rússneska varnarmálaráðuneytið hefur lagt sig fram um að beina sem minnstri athygli að hlut Wagner-liða í Úkraínu. Bloomberg-fréttastofan segir að ráðuneytið standi gegn því að í sjónvarpi sé sagt frá framgöngu Wagner-manna í Bakhmut.

Heimild: Euronews

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …