Home / Fréttir / Vesturlönd kasta silkihönskunum með nýjum vopnum til Úkraínuhers

Vesturlönd kasta silkihönskunum með nýjum vopnum til Úkraínuhers

Hér eru bandarískir Bradley bryndrekar sem kallaðir hafa verið Rolls Royce eyðimerkurinnar. Skriðdrekar af þessari gerð eru nú á leið til Úkraínu,

Vopnasending Bandaríkjastjórnar til Úkraínu fyrir um 3 milljarða dollara er sú stærsta til þessa. Þar er meðal annars að finna milliþunga skriðdreka af Bradley gerð, brynvarða bíla og Sea Sparrow flaugar. Hafa þær ekki áður verið sendar til Úkraínu. Bandaríkjamenn nota gamlar gerðir flauganna ekki lengur og eiga mikið magn þeirra í geymslum.

Eins og nafnið segir eru Sea Sparrow flaugar smíðaðar eru til notkunar á hafi úti. Úkraínuher ræður á hinn bóginn ekki yfir neinum starfhæfum flota. Í vefblaðinu Politico segir að Úkraínumönnum hafi tekist að breyta sovéskum Buk-lofvarnaskotpöllum á þann veg að þaðan megi skjóta Sea Sparrow flaugum í stað upphaflegu sovésku flauganna.

Sea Sparrow lúta ratsjárstjórn og má nota þær bæði til að skjóta niður flugvélar og flugskeyti.

Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti þakkaði Bandaríkjamönnum stuðninginn í daglegu ávarpi sínu föstudaginn 6. janúar og sagði þetta „nákvæmlega það sem við þurftum“.

Bandaríska hugveitan ISW sem fylgist náið með framvindu átakanna í Úkraínu og umræður um þau í Rússlandi lýsti 6. janúar undrun yfir að rússnesk yfirvöld og öflugir bloggarar um hermál sem styðja þau hafi verið óvenjulega þögulir um þessa miklu bandarísku vopnasendingu Bandaríkjastjórnar til Úkraínu.

Danski herfræðingurinn Jens Wenzel Kristoffersen við Center for Militære Studier hrósar grein í tímaritinu Ræson stjórnvöldum í Frakklandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum fyrir að senda milliþunga skriðdreka til Úkraínu og taka þannig af sér silkihanskana.

Hann telur að með aukinni aðstoð af þessu tagi sé stuðlað að því að stríðinu ljúki og segir meðal annars:

„Til þessa hafa sendingarnar einkennst af vopnakerfum til varna og hjálpargögnum sem helst ættu að „pirra“ rússneska björninn. Virðist matið hafa breyst með viðurkenningu á að þreytistríðið sem nú er háð breyti ekki vígstöðunni neitt verulega. Hvorugur aðili leggur undir sig nýtt landsvæði né endurheimtir tapað landsvæði. Eigi að breyta gangi stríðsins verði helst að koma til þyngri og meiri sóknarvopn – og helst mjög mikið af þeim.“

Herfræðingurinn Kristian Lindhardt skýrir lesendum Jyllands Posten frá því hvernig nýju vopnin geti gagnast Úkraínuher. Hann fái með þeim forskot því að þau gefi honum færi á mun meiri og sneggri hreyfanleika til sóknar. Kostir hraðskreiðra brynvarinna og vopnaða farartækja hafi meðal annars blasað við þegar Úkraínuher sótti inn í borgina Kharkiv og frelsaði hana á breskum og dönskum brynvörðum bílum.

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …