Home / Fréttir / Vopnakaup Tyrkja vekja spurningar innan NATO

Vopnakaup Tyrkja vekja spurningar innan NATO

 

Rússneskar S-400 flaugar í skotstöðu.
Rússneskar S-400 flaugar í skotstöðu.

Höfundur: Kristinn Valdimarsson

Lega Tyrklands við botn Miðjarðarhafs gerir landið að krossgötum á milli Evrópu og Asíu.  Saga þess ber líka með sér að í gegnum tíðina hefur ríkið bæði horft til austurs og vesturs. Á gullaldarárum Ottómanveldisins sem stóð frá 15. til 19. aldar náði ríkið yfir stór svæði bæði í Suðaustur – Evrópu og Mið – Austurlöndum.

Veldi Ottómana hrundi eftir fyrri heimsstyrjöldina. Þeir höfðu verið í liði með Miðveldunum þ.e. Þýskalandi og Austurríki – Ungverjalandi. Þá stofnaði Mustafa Kemal Atatürk Tyrkland og stuðlaði hann að því að samfélagið varð mun veraldlegra en það var áður.  Stefna Atatürks réð ríkjum í landinu það sem eftir lifði 20. aldarinnar. Eftir að Recep Tayyip Erdogan varð forsætisráðherra árið 2003 og síðar forseti hafa hins vegar ýmsir á Vesturlöndum haft áhyggjur af því að Tyrkland sé að fjarlægjast Evrópu og Bandaríkin.

Hætt er við að fréttir um að tyrknesk stjórnvöld hafi ákveðið að kaupa S-400 loftvarnakerfið sem framleitt er af Rússum verði ekki til þess að bæta samskipti landsins við vinaþjóðir þess í Evrópu og Norður – Ameríku þótt sjálfir segi Tyrkir að þeir hafi aðeins valið hagkvæmasta kostinn til að verja lofthelgi sína.

Um kaupin er rætt í nýlegri grein í Defence News og þar kemur fram að bæði Petr Pavel, formaður hermálanefndar Atlantshafsbandalagsins, og Heidi H. Grant, yfirmaður alþjóðamála hjá bandaríska flughernum (Deputy Under Secretary of the Air Force for International Affairs), hafi lýst áhyggjum sínum vegna þessara viðskipta og að háttsettur yfirmaður í flughernum hafi lýst yfir því að verði af kaupunum muni Tyrkir ekki geta tengt loftvarnir sínar við varnarkerfi NATO.

Bandaríkjamenn hafa líka áhyggjur af því að kaupin kunni að stofna öryggi F-35 herflugvéla í hættu en Tyrkir hafa fest kaup á yfir 100 slíkum vélum.  Ef þeir tengja stjórnkerfi þeirra við S-400 kerfið er hugsanlegt að leynilegar upplýsingar um þessar hátæknivélar berist Rússum.  Þegar Bandaríkjamenn selja öðrum þjóðum vopn er kaupandanum gert að skrifa undir samning sem kveður á um að söluaðili megi fylgjast með því hverjir hafi aðgang að vopnunum til að koma í veg fyrir að hönnunin komist í hendur andstæðinga Bandaríkjanna.  Það flækir hins vegar málið nú að Tyrkir, ásamt mönnum fleiri ríkja, komu að hönnun F-35 vélarinnar og því getur reynst Bandaríkjamönnum erfitt að neita þeim um vélarnar, það gæti veikt traust Tyrkja í garð NATO.

Vandinn sem tengist hergagnafjárfestingum Tyrkja er hluti af stærra álitamáli sem Bandaríkjamenn og NATO standa frammi fyrir núna. Það snýst um hvort Bandaríkjamenn ætli að selja þjóðum vopn sem verða samnýtt með rússneskum hergögnum.  Þetta á til dæmis við um ýmis ríki í Mið – Austurlöndum.  Þannig hafa Sádi Arabar hug á að kaupa bæði rússneska S-400 kerfið og bandaríska gagneldflaugakerfið THAADS (Terminal High Altitude Area Defence System).  Einnig hafa ráðamenn í Sameinuðu arabísku furstadæmunum áhuga á að verða sér úti um F-35 vélar á sama tíma og þeir ráðgera að vinna með Rússum að hönnun nýrrar orrustuflugvélar.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …