Home / Fréttir / Vopnaglamur í Bretlandi til verndar Gíbraltar gegn ESB og Spánverjum

Vopnaglamur í Bretlandi til verndar Gíbraltar gegn ESB og Spánverjum

Frá Gíbraltar
Frá Gíbraltar

Úrsögn Breta úr ESB hefur leitt af sér meiri hörku en áður í deilu þeirra við Spánverja um ráð yfir Gíbraltar, klettahöfða við Njörvasund sem tengir Miðjarðarhaf og Atlantshaf.

Deilan við Spánverja vekur upp 35 ára gamlar minningar um Falklandseyjastríðið hjá Bretum en þá vörðu þeir ráð sín yfir Suður-Atlantshafseyjunum gagnvart yfirgangi Argentínumanna. Nú segja breskir herfræðingar að breski flotinn sér umtalsvert veikari en í Falklandseyjastríðinu en hann hafi þó enn burði til að „lama“ Spánverja.

Chris Parry, flotaforingi og fyrrv. yfirmaður aðgerðasviðs í breska varnarmálaráðuneytinu, hefur hvatt ríkisstjórnina til að leggja „hæfilegt“ fjármagn til breska hersins vilji hún „fylgja eftir stóryrðum“ vegna Gíbraltar.

Ummæli flotaforingjans féllu eftir að Howard lávarður, fyrrverandi leiðtogi breska Íhaldsflokksins, sagði við BBC sunnudaginn 2. apríl að Theresa May ætti að hóta Spánverjum hervaldi til að verja Gíbraltar eins og Margaret Thatcher hefði gert vegna Falklandseyja. Óviðunandi væri að sætta sig við kröfur ESB um að Gíbraltar verði hluti Spánar og þar með ESB.

Þegar breska stjórnin ákvað að endurheimta Falklandseyjar frá Argentínu árið 1982 voru að minnsta kosti 127 skip í breska flotanum, þar á meðal 60 tundurspillar og freigátur á annan tug kjarnorku-árásarkafbáta fyrir utan tvö stór skip fyrir landgöngulið og þrjú flugmóðurskip.

Nýjustu tölur sýna að nú eigi Bretar ekkert flugmóðurskip, sjö kjarnorku-árásarkafbáta, 13 freigátur og sex tundurspilla.

Á níunda áratugnum sá stjórn Thatcher um að útgjöld til hermála námu um 4% af vergri landsframleiðslu Breta sem var mun minni þá en nú þegar útgjöldin eru rétt um 2%.

Í samtali við The Telegraph mánudaginn 3. apríl sagði Parry flotaforingi að hann tryði ekki að spennan nú mundi leiða til hernaðarátaka. Það væru þó innantóm orð ef ríkisstjórnin léti eins og hún hefði einhver hernaðarleg úrræði í hendi sér nema hún yki jafnframt útgjöld til hermála í því skyni að fylgja orðum sínum eftir.

Howard lávarður sagði í sömu andrá og hann gaf til kynna að Theresa May gripi til vopna gegn Spánverjum til að vernda fullveldi Gíbraltar:

„Við ráðum yfir mun minna valdi en á tíma Falklandseyjadeilunnar og úthald okkar er minna. Við höfum umtalsvert minni getu nú en þá til að koma fram þjóðarvilja okkar með hervaldi.

Geta hers okkar til bardaga hefur veikst eftir margra ára aðgerðir í Afganistan og Írak og vegna þess hve illa ríkisstjórnin hefur staðið að fjárveitingum til varnarmála.“

Lávarðurinn fullyrti á hinn bóginn að hernaðarmáttur Breta væri „greinilega“ meiri en Spánverja og kæmi til átaka væru Bretar þrisvar sinnum öflugri en Spánverjar væri litið til getu og gæða. Hann sagði:

„Við gætum lamað Spánverja um nokkurt skeið og ég tel líklegt að Bandaríkjamenn mundu einnig styðja okkur. Sagan ætti að kenna Spánverjum að það borgar sig ekki að abbast upp á okkur og við gætum enn sviðið skegg Spánarkonungs.“

Heimild: The Telegraph

 

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …