
Rússneskir landamæraverðir af Kóla-skaganum fyrir austan Noreg lögðu nýlega land undir fót og fóru alvopnaðir alla leið á Norðurpólinn til að sýna mátt og megin Rússlands. Venjulega láta þeir sér nægja að sinna vörslu á landamærum Rússlands gagnvart Noregi og Finnlandi.
Frá þessu var sagt á vefsíðunni Barents Observer fimmtudaginn 13. apríl. Þar segir að fyrst hafi landamæraverðirnir farið til Nagurskoje-eyju nyrst á eyjunni Aleksandra við Franz Josef Land. Þar er nyrsta landamærastöð Rússlands. Þaðan flugu þeir til Camp Barneo, rússneskrar stöðvar 89°norður á ísbreiðu í Norður-Íshafi.
Frá þessu var sagt í TV21 í Múrmansk en fréttamaður stöðvarinnar hitti verðina þegar þeir komu aftur til flugvallarins þar í byrjun síðustu viku. Myndir í sjónvarpsfréttinni sýndu landamæraverðina við æfingar í Camp Barneo og einnig á Norðurpólnum sjálfum en hann er í innan við klukkutíma fjarlægð með þyrlu frá Camp Barneo.
Rússar halda mönnum úti í Camp Barneo í nokkrar vikur á ári og þá njóta þeir þjónustu norskra yfirvalda í Longyearbyen á Svalbarða. Var samið um þessa þjónustu milli sýslumannsins á Svalbarða og rússneskra yfirvalda í mars 2017. Hafði þá verið rof á þjónustunni frá Svalbarða vegna gruns Norðmanna um að Rússar ætluðu að nota flugvöllinn í Longyearbyen í tengslum við heræfingar á Norður-Íshafi.
Á árinu 2015 skapaðist spenna í samskiptum stjórnvalda Noregs og Rússlands þegar Dmitríj Rogozin, varaforsætisráðherra Rússlands, heimsótti Svalbarða á leið sinni til Camp Barneo og Norðurpólsins. Rogozin er á bannlista ESB og Noregs og þess vegna má hann ekki ferðast til Noregs.
Norska utanríkisráðuneytið sagði að heimsókn Rogozins til Svalbarða væri ekki ólögleg en ráðuneytið hefði tilkynnt rússneskum yfirvöldum að menn á bannlista væru ekki velkomnir á Svalbarða.