Home / Fréttir / Von der Leyen herðir tóninn í garð Kínverja

Von der Leyen herðir tóninn í garð Kínverja

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, flytur Kínaræðu sína 30. mars 2023.

Kínverska alþýðulýðveldið nýtir sér veika stöðu Vladimirs Pútins Rússlandsforseta til að ná sem mestum stjórnmálalegum og landfræðilegum ítökum í Rússlandi og snúa þannig við valdahlutföllum í samskiptum þessara gamalgrónu bandamanna, sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, í tímamóta ræðu fimmtudaginn 30. mars á ráðstefnu sem tvær hugveitur, Mercator Institute for China Studies og European Policy Centre, héldu í Brussel.

„Því fer víðs fjarri að Xi Kínaforseti hafi staldrað við vegna grimmdarlegu og ólöglegu innrásarinnar í Úkraínu, hann leggur áfram rækt við „takmarkalausa vináttu“ sína við Rússa undir stjórn Pútins,“ sagði von der Leyen:

„Það hefur hins vegar orðið áherslubreyting í samskiptum Kínverja og Rússa. Heimsóknin sýnir greinilega að Kínverjar líta á veika stöðu Pútins sem leið til að herða tök sín á Rússum.

Og það er ljóst að valdajafnvægið í samskiptunum – sem var mestan hluta síðustu aldar Rússum í hag – er nú á hinn veginn.“

Fréttastofan Euronews minnir á að Evrópusambandið og vestrænir bandamenn þess hafi fylgst nákvæmilega með nýjustu skrefum Kínverja á alþjóðavettvangi, þar á meðal mikilvægri ferð Xis Jinpings Kínaforseta til Moskvu. Grunsemdir séu um að Kínverjar veiti Rússum hernaðaraðstoð í Úkraínustríðinu auk þess sem 12 punkta friðaráætlun Xis forseta fyrir Úkraínu sæti harðri gagnrýni vegna þess að þar sé gerð tilraun til að flækja skilin milli árásaraðila og þolanda árásarinnar og vegna þess að þar sé ekkert minnst á svæðin sem Rússar hafi hernumið í Úkraínu.

Von der Leyen sagði að það mundi „ráða úrslitum“ um eðli samskipta ESB og kínverskra stjórnvalda hvaða stöðu Kínverjar tækju í Úkraínustríðinu.

„Sú ábyrgð hvílir á Kínverjum að leggja raunhæfan skerf af mörkum til að stuðla að réttlátum friði,“ sagði von der Leyen.

„Friðaráætlun sem felur í raun í sér blessun á innlimun af hálfu Rússa er einfaldlega ekki lífvænleg. Við verðum að tala hreint út um þetta atriði.“

Ræða forseta framkvæmdastjórnar ESB var 40 mínútna löng og þar birtist raunsæ og á stundum sláandi mynd af núverandi stöðu í samskiptum ESB og Kína. Sagt var að aðilarnir hefðu fjarlægst og þeir glímdu við meiri vandræði en áður sín á milli. Þá voru Kínverjar beinlínis sakaðir um að leggja stein í götu frjálsra viðskipta, um að beita smáríki ofríki, brjóta mannréttindi, sýna hernaðarlega hlið sína meira en áður, stunda upplýsingafalsanir og áróðurherferðir í þágu eigin áhrifa víða um heim.

„Stigmagnandi aðgerðir af þessum toga benda til þess að kúgun aukist á heimavelli í Kína og Kínverjar hnykli brýnnar erlendis,“ sagði von der Leyen.

„Kínverjar hafa nú lokið kaflanum sem snerist um „umbætur og opnun“ og eru að hefja nýjan um öryggi og stýringu.“

Von der Leyen varði löngu máli til að lýsa ástandinu í Kína þar sem hún taldi að  áhersla væri aukin á kúgun á heimavelli og áréttingu á mætti Kína á alþjóðavettvangi. Um væri að ræða risaveldi sem hefði lagað alla efnahagsstarfsemi sína og samfélagsgerð að alræðisvaldi kommúnistaflokksins og traðkaði á rétti einstaklinga til að brjóta þá undir fullveldi ríkisins.

„Við gætum átt í vændum að sjá Kína óháðara umheiminum og heiminn háðari Kína,“ sagð von der Leyen.

„Kínverski kommúnistaflokkurinn hefur sett sér það skýra markmið að kollvarpa alþjóðakerfinu og skipa Kína þar í miðjuna. Við sjáum þetta á afstöðu Kínverja í alþjóðasamtökum, þar birtist markviss vilji til að vinna að annarri skipan heimsmála.“

Von der Leyen vék að ýmsum þáttum í samskiptum við Kínverja sem þróast hefðu á verri veg – bann evrópskra ríkisstjórna á notkun TikTok, frystingu fjárfestingasamninga, stöðugum efasemdum um uppruna COVID-19-faraldursins og aragrúa gagnkvæmra viðskiptahafta –  en sagði að ESB hefði einfaldlega ekki efni á að slíta öll tengsl við Kína.

„Ég tel það hvorki lífvænlegt – né Evrópu hagstætt – að slíta tengslin við Kína. Samskiptum okkar er ekki unnt að lýsa sem svörtum eða hvítum og ekki heldur viðbrögðum okkar,“ sagði von der Leyen og hvatti til stöðugleika í diplómatískum samskiptum við Kína og að engum samskiptaleiðum yrði lokað, það ætti að draga úr áhættu en ekki klippa á samskipti.

Hún nefndi líffræðilegan fjölbreytileika og loftslagsbreytingar sem tvö svið þar sem ESB og Kína gætu fundið sameiganlegan grunn þegar tekist væri á við verkefni sem vörðuðu allt mannkyn.

Hún sagði að viðskipti með vörur og þjónustu væru „báðum til hagsbóta“ og áhættulaus. Þegar litið er á vörur eru Kínverjar helstu viðskiptavinir ESB, var vcrðmæti viðskiptanna næstum 700 milljarðar evra árið 2021.

„Það ríkir þó ójafnvægi í samskiptum okkar og ræðst það í vaxandi mæli af því að ríkiskapítalistakerfi Kína er til vandræða. Við þurfum því að ná betra jafnvægi í samskiptunum með gagnsæi, fyrirsjáanleika og gagnkvæmni,“ sagði hún.

Von der Leyen gagnrýndi augljósan samruna í Kína á milli starfsemi hersins annars vegar og fyrirtækja hins vegar sem leiddi til þess að hætta kynni að vera á ferðum þegar litið væri til viðkvæms tæknivarnings og hugverkaréttinda. Gaf hún í skyn að framkvæmdastjórn ESB mundi gera nýjar tillögur um hvernig skima bæri ákveðnar tegundir fjárfestinga.

Hún taldi að endurskoða yrði samninginn sem ESB og Kina gerðu sín á milli árið 2020. Hann var síðar frystur og ekki framkvæmdur. ESB ætti að gæta þess að verða ekki háð Kína t.d. varðandi græna tækni og hráefni. Eftirspurn á þessum sviðum mundi vaxa mjög mikið á næstunni þar sem innan ESB væri stefnt að því að ná kolefnishlutleysi fyrr en ella vegna stríðsins í Úkraínu.

Viðbrögð Kínverja 

Fu Cong, sendiherra Kína gagnvart ESB, lýsti vonbrigðum sínum með ræðu Ursulu von der Leyen föstudaginn 31. mars og sagði „ekkert samhengi“ í skoðunum hennar. Hún afflytti viðhorf kínverskra stjórnvalda og skipaði sér í hóp með bandarískum harðlínumönnum.

„Ég varð fyrir dálitlum vonbrigðum,“ sagði Fu Gong við CGTN, ríkisreknu kínversku sjónvarpsstöðina.

„Í ræðunni var mikið af missögnum og mistúlkunum á stefnu kínverskra stjórnvalda. Mér finnst að sá sem skrifaði ræðuna fyrir von der Leyen forseta hafi í raun engan skilning á Kína eða kjósi markvisst að rangfæra afstöðu Kína.“

Euronews segir að harður tónninn í ræðu von der Leyen hafi orðið til þess að margir sérfræðingar sperrtu eyrun. Þeir eru vanir að hlusta á mun hófsamari skoðanir embættismanna ESB þegar þeir fjalla um Kína.

Fu Cong segir að í öðru orðinu tali von der Leyen um að það sé mikilvægt fyrir Evrópuþjóðir að eiga samstarf við Kínverja og þjóni evrópskum hagsmunum. Í hinu orðinu komi greinilega fram að hún sé hrædd við harðlínumenn í Evrópu og ef til vill einnig í Bandaríkjunum.

„Lesi maður ræðuna fær maður á tilfinninguna að það sé eins og tveir einstaklingar séu að rífast hvor við annan, það er ekkert samhengi,“ sagði sendiherrann við CGTN.

Ursula von der Leyen flutti ræðu sína nokkrum dögum áður en hún heldur með Emmanuel Macron Frakklandsforseta í þriggja daga opinbera heimsókn til Kína.

„Við vonum að heimsókn hennar til Kína og samtöl hennar við kínverska forystumenn verði til þess að hún skilji Kínverja betur,“ sagði Fu Cong sendiherra.

 

Heimild: Euronews

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …