Home / Fréttir / Vladivostok: Pútín og Kim funda í fyrsta sinn

Vladivostok: Pútín og Kim funda í fyrsta sinn

Við upphaf fundarins í Vladivostok. Kim Jong un og Vladimir Pútin.
Við upphaf fundarins í Vladivostok. Kim Jong un og Vladimir Pútin.

Kim Jong un, einræðisherra í N-Kóreu og Vladimir Pútin, forseti Rússlands, hittust á fyrsta fundi sínum í Vladivostok í Rússlandi fimmtudaginn 25. apríl. Rússar fagna viðleitni stjórnar N-Kóreu til að skapa eðlileg samskipti við Suður-Kóreu og Bandaríkin, segir Pútin.

„Samskipti okkar standa á djúpum sögulegum rótum,“ sagði Kim þegar fundur þeirra Pútins hófst. „Ég vona að viðræður okkar marki mikilsverðan áfanga.“

Pútin sagði að heimsókn Kims til Rússlands yrði til að auka skilning Rússa á því hvernig mætti leysa úr stöðu mála á Kóreuskaga og hvað Rússar gætu gert til að ýta undir jákvæðu þróunina þar um þessar mundir.

Nú eru um 10.000 verkamenn frá N-Kóreu í Rússlandi en vegna alþjóðlegra efnahagsþvingana gegn N-Kóreu ber þeim að hverfa til síns heima fyrir árslok. Verkamennirnir eru mikilvæg tekjulind fyrir Kim og stjórn hans. Neyðist Kim til að afsala sér þessum tekjum er líklegt að hann vilji meiri efnahagsaðstoð frá Rússum.

Pútin og Kim hafa aldrei hist áður og nú er Kim í fyrstu opinberu heimsókn sinni til Rússlands.

Kim ferðast í brynvarðri járnbrautarlest og kom til Rússlands um landamæraborgina Hasan miðvikudaginn 24. apríl á leið sinni til hafnarborgarinnar Vladivostok við Kyrrahaf. Þeir Pútin hittast í háskólahverfi á Russkíj-eyju.

Kim snýr aftur til N-Kóreu föstudaginn 26. spríl að sögn rússneskra yfirvalda sem sögðu ekki líklegt að gefin yrði út sameiginleg tilkynning að toppfundinum loknum.

Norður-Kóreumenn líta á Kínverja sem helstu bandamenn sína en tengsl ráðamanna landsins og Rússa voru mikil á tíma Sovétríkjanna og í kalda stríðinu. Jósef Stalín, einræðisherra í Rússlandi, réð úrslium um að afi núverandi einræðisherra í N-Kóreu, Kim Il sung, kæmist til valda í N-Kóreu árið 1948.

 

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …