Home / Fréttir / Vísbendingar um yfirvofandi lofthernað Rússa – lofvarnir Úkraínu efldar

Vísbendingar um yfirvofandi lofthernað Rússa – lofvarnir Úkraínu efldar

Öllum tegundum rússneskra hervéla er nú stefnt að landamærum Úkraínu.

Svo virðist sem Rússar stefni nú miklum flugherflota að landamærum Úkraínu. Herfræðingar segja að það bendi til að „eitthvað mikið“ sé í aðsigi. Til að svara loftárásum Rússa kunni NATO ríki að neyðast fyrr eða síðar til að senda orrustuþotur til Úkraínu.

Njósnastofnanir segja að rússneskum orrustuvélum, sprengjuvélum og þyrlum sé nú flogið í áttina að Úkraíniu.

Á vefsíðu Berlingske er rætt við Anders Puck Nielsen, herfræði við Forsvarsakademiet, háskóla danska hersins. Hann undrast að Rússar ætli nú að veðja á lofthernað:

„Rússum hefur ekki tekist að sanna fyrir neinum að þeir séu sérstaklega færir í lofthernaði þar sem margar vélar eru á lofti samtímis. Þeir hafa stundum sent fáeinar saman en þeir hafa ekki gripið til stórra, samræmdra aðgerða.“

Athygli beinist að þessum þætti hernaðarins nú vegna frétta sem birtust í breska blaðinu The Financial Times miðvikudaginn 15. febrúar. Vitnað er í heimildarmenn innan vestrænna njósnastofnana sem segja frá flugi rússnesku vélanna og ótta innan NATO við að ætlunin sé að beita flughernum til stuðnings landhernum í stórsókn hans.

„Rússneski landherinn er nær því að þrotum kominn og þess vegna er frekar líklegt að Rússar reyni að breyta þessu í lofthernað. Eigi Úkraínumenn að standast slíkt áhlaup þurfa þeir sterkar loftvarnir og eins mikið af skotfærum og verða má,“ segir heimildarmaður við breska blaðið.

Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði á blaðamannafundi þriðjudaginn 14. febrúar að Bandaríkjamenn sæju engin merki um „allsherjar loftárás af hálfu Rússa“. Ráðherrann sagði á hinn bóginn að Bandaríkjastjórn og bandamenn hennar gerðu sitt besta til að styrkja loftvarnir Úkraínu eins frekast væri unnt á sem skemmstum tíma.

Varnarmálaráðherrar NATO-ríkjanna komu saman til fundar í Brussel dagana 14. og 15. febrúar.

Úkraínustjórn hefur hvað eftir annað beðið NATO ríkin um orrustuvélar en þau stíga varlega til jarðar í svörum sínum. Fyrir ráðherrafundinn sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, að þar yrði ekki rætt um orrustuþotur en útilokaði ekki að lögð yrði áhersla á að tryggja afhendingu stórskotavopna og skriðdreka til Úkraínuhers.

Anders Puck Nielsen telur að orrustuþotur að vestan séu ekki rétta svarið við núverandi hættuástandi. Hann segir:

„Hefji Rússar mikinn lofthernað fyrir lok mánaðarins höfum við ekki tök á að senda vestrænar orrustuþotur til Úkraínu, til þess þarf lengri tíma.“

Þess vegna skipti meira máli að láta Úkraínumönnum í té skotfæri í loftvarnakerfin sem séu nú þegar í landi þeirra.

Anders Puck Nielsen játar að „alveg örugglega“ aukist þrýstingur á NATO-löndin beinist meiri athygli en áður að lofthernaði:

„Þegar til langs tíma er litið er það mat mitt að við neyðumst til að láta Úkraínumenn hafa orrustuvélar. Vélar þeirra verða skotnar niður hver af annarri og fái þeir ekki einhverjar nýjar verða þeir fyrr eða síðar án flughers.“

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …