Home / Fréttir / Vinur Rússa og Kínverja endurkjörinn forseti Tékklands

Vinur Rússa og Kínverja endurkjörinn forseti Tékklands

Milos Zeman, forseti Tékklands.
Milos Zeman, forseti Tékklands.

 

Milos Zeman (73 ára), forseti Tékklands, náði endurkjöri í embætti sitt í síðari umferð forsetakosninga sem lauk laugardaginn 27. janúar. Zeman hlaut 51,4% atkvæða en Jiri Drahos, keppinautur hans, 48,5%. 

Kjörstöðum var lokað klukkan 13.00 að íslenskum tíma laugardaginn 27. janúar, seinni dag, annarrar umferðar kosninganna. Ekki liðu nema tæpar tvær klukkustundir frá lokun kjörstaða þar til ljóst varð að Zeman sæti enn í fimm ár í forsetaembættinu sem tryggir honum lítið annað en formleg völd. 

Fylgi Jiris Drahos (68 ára), fyrrverandi forseta vísindaakademíu Tékklands, var minna meðal menntaðra borgarbúa landsins en hann vænti. Þetta var í fyrsta sinn sem Drahos tók þátt í stjórnmálum. Var talið að í þeim hópum ætti hann verulegt fylgi vegna hollustu sinnar við Evrópusambandið og stefnu þess. Drahos vildi frekar leggja rækt við ESB-samstarfið en að taka undir gagnrýni á Brusselvaldið í anda Ungverja, Pólverja og Slóvaka. 

Undanfarin ár hefur Zeman lagt áherslu á að styrkja samband Tékka við Rússa auk þess að hafa eflt tengslin við Kínverja. 

Eftir að úrslitin lágu fyrir sagði Michal Koran, sérfræðingur á skrifstofu hugveitunnar Aspen Institute í Prag, að Rússar hefðu ekki getað fengið meiri gleðitíðindi. 

Í samtali við The New York Times (NYT) sagði hann að enginn vafi væri á að Rússar hefðu blandað sér í kosningabaráttuna. Þeir þyrftu þess raunar ekki, vildu þeir sá sundrung í ESB, innan sambandsins sæju menn um það sjálfir. 

NYT segir að til marks um afskipti Rússa megi nefna þann áróður gegn Drahos á samfélagsmiðlum að hann hefði starfað með öryggislögreglunni á valdatíma kommúnista. Blaðið segir að ekki liggi fyrir neitt þessu til sönnunar. 

Endurkjör Zemans er jafnframt sigur fyrir forsætisráðherra Tékklands, milljarðamæringinn Andrej Babis, stuðningsmann forsetans. Forsætisráðherrann stendur höllum fæti vegna ásakanna um fjársvik. Zeman segist ætla að styðja forsætisráðherrann í málinu. 

Zeman gengst upp í að vera gamaldags, hann fer ekki leynt með ánægjuna af að drekka og reykja. Hann sætir gagnrýni fyrir að ýta undir ruddamennsku í stjórnmálum og fyrir dónaleg ummæli eða brandara eins og að „uppræta“ eigi blaðamenn. Í augum margra stuðningsmanna Zemans felst styrkur hans í þessari framkomu, menn eigi að segja hlutina eins og þeir eru í stað þess að boða huglausa flatneskju. 

Zeman var kjörinn forseti árið 2013 í fyrstu beinu forsetakosningunum í Tékklandi. Forverar hans í embættinu Vaclav Havel og Vaclav Klaus frá 1989 voru kjörnir af þingmönnum. Zeman lýsir sér sem málsvara „litla mannsins“ en hann á langa sögu í stjórnmálum Tékklands og var um tíma forsætisráðherra. 

Strax við upphaf flóttamannavandans í Evrópu 2014/15 greip Zeman til aðgerða í því skyni að halda straumi farand- og flóttafólks frá landi sínu. Hann vildi loka leiðum inn í Tékkland og snerist gegn tilraunum af hálfu ESB til að skylda aðildarríkin til að taka á móti kvóta-flóttamönnum. 

Zeman segir að aldrei verði unnt að laga múslima að tékknesku samfélagi og hætta sé á að jihadistar, heilagir stríðsmenn múslima, sprengi „Prag-kastala í loft upp“. 

NYT segir að útlendingamál hafi ekki sett neinn svip á forsetakosningabaráttuna. Afstaða Zemans hefði ráðið, hann hefði engu að síður sagt að Drahos væri samfélaginu hættulegur: „Stöðvið útlendingana og Drahos. Við eigum þetta land. Kjósið Zeman,“ sagði í kosningaauglýsingum í blöðum og á skiltum. 

Drahos svaraði með því að ráðast á einn helsta ráðgjafa Zemans, Martin Nejedly, sem er þekktur fyrir að eiga náin samskipti við Rússa: „Stöðvið rússnesku innrásina og Nejedly. Þið eigið ekki þetta land. Kjósið Drahos,“ sögðu stuðningsmenn Drahos á auglýsingamiðlum 

Stjórnmálaskýrendur segja að tékkneska þjóðin sé sundruð og klofin vegna pólitískra átaka um hvort hún eigi að halla sér að ESB eða Rússum. Þetta skapi meiri kvíða og ótta en áður hafi ríkti í þjóðfélaginu. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …