Home / Fréttir / Vintstri öfgamenn í No Borders ráðast á styttu af de Gaulle í Calais – berjast fyrir farandfólk

Vintstri öfgamenn í No Borders ráðast á styttu af de Gaulle í Calais – berjast fyrir farandfólk

 

Málað var á styttu af Charles de Gaulle í Calais - Yvonne de Gaulle stendur við hlið manns síns.
Málað var á styttu af Charles de Gaulle í Calais – Yvonne de Gaulle stendur við hlið manns síns.

Samtökin No Borders sem hafa látið að sér kveða í þágu hælisleitenda hérlendis eru til umræðu í frönskum fjölmiðlum um þessar mundir vegna aðildar þeirra að mótmælum í hafnarborginni Calais í Frakklandi laugardaginn 23. janúar. Í Le Figaro mánudaginn 25. janúar segir að á laugardaginn hafi á fjórða tug manna verið handteknir um borð í breskri ferju í Calais-höfn. 26 þeirra voru úr hópi farand- og flóttamanna en 9 félagar í samtökunum No Borders.

Í franska blaðinu er samtökunum lýst sem ultra-gauche, það er lengst til vinstri. Þau hafi látið verulega að sér kveða í Calais og krefjist afnáms landamæra og frjálsrar farar fólks. Þá hafi samtökin einnig staðið að því að rauðmála orðin Nik la France á styttu af Charles de Gaulle, hershöfðingja og fyrrv. Frakklandsforseta, í miðbæ Calais en við hlið styttunnar er önnur af Yvonne, eiginkonu de Gaulles.

Framganga félaga í No Borders hefur vakið reiði margra í Calais og nágrenni. Xavier Bertrand, nýr héraðsstjóri í Nord-Pas-de-Calais-Picardie, sagði: „Framkoma No Borders í Calais er hneykslanleg, það verður að bregðast við með refsingu! Ég krefst þess að ríkisstjórnin boði tafarlaust til neyðarfundar.“

Natacha Bouchart, borgarstjóri í Calais, sagði við blaðið Voix du Nord, að það hefði „engin tilviljun“ ráðið mótmælunum laugardaginn 23. janúar. Þau hafi ekki verið annað en fyririsláttur af hálfu vinstrisinnanna í No Borders og Antifa til að draga að þeim athygli svo þeir fengju skjól til að ráðast á styttuna af de Gaulle, tákni franska lýðveldisins.

Le Figaro segir að No Borders hafi látið að sér kveða í Þýskalandi á tíunda áratugnum. Frá árinu 2009 hafi samtökin staðið fast að baki þeim sem hafist við í „frumskóginum“ við Calais og vilji komast til Bretlands. Félagar í No Borders leggi íbúum frumskógarins, eins og samastaður þeirra er nefndur, lið í samskiptum þeirra við frönsk yfirvöld og opni þeim stundum mannlaus hús til aðseturs. Franska innanríkisráðuneytið hefur auga með félagsskapnum og segir flesta stjórnleysingjanna Frakka, Þjóðverja og Hollendinga. Þá segja breskir fjölmiðlar nokkur fjöldi Breta sé í samtökunum.

Le Figaro segir að heimamenn í Calais hafi illan bifur á samtökunum. „Félagar í No Borders eru til leiðinda. Þeir reyna að heilaþvo aðkomufólkið sem hefur aðeins áhuga á að komast til Bretlands,“ segir félagi í samtökum sem láta sér annt um hag aðkomufólksins. Varaborgarstjóri Calais segir að í hópi No Borders séu aðgerðarsinnar frá góðum heimilum sem þekki lög og reglur til hlítar en nýti sér aðkomufólkið til að koma illu af stað í þágu eigin málstaðar.

Eftir ítrekaða áreitni í garð lögreglu og annarra yfirvalda ákvað franska innaríkisráðuneytið í byrjun nóvember að herða eftirlit með No Borders. „Innan raða No Borders eru skráðir aðgerðarsinnar […] sem hafa hag af upplausn og þjáningum farandfólksins, þeir nýta sér þessar þjáningar og þrýsta á að fólkið grípi til örþrifaráða,“ sagði talsmaður franska innanríkisráðuneytisins. Aðgerðarsinnarnir hvetji farandfólkið til að beita lögreglu ofbeldi, stöðva flutningabíla og troðast inn í þá til að komast til Englands.

Stjórnmálamenn í flokk Lýðveldissinna (mið-hægri) og Þjóðfylkingunni brugðust mjög illa við fréttunum af árásinni á styttuna af de Gaulle og töldu með því vegið að heiðri franska lýðveldisins. Af hálfu sósíalista í ríkisstjórn Frakklands var aðförin að styttunni einnig fordæmd og hefur borgarstjóranum í Calais verið boðið að hitta innanríkisráðherrann í næstu viku.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …