Home / Fréttir / Vínarborg: Hryðjuverkamönnum bægt frá jólamarkaði

Vínarborg: Hryðjuverkamönnum bægt frá jólamarkaði

Á jólamarkaði fyrir framan ráðhús Vínarborgar.
Á jólamarkaði fyrir framan ráðhús Vínarborgar.

Austurrísk yfirvöld hafa komið í veg fyrir áform hryðjuverkamanna um árásir meðal annars á einn af jólamörkuðum Vínarborgar. Sagt var frá þessi í fjölmiðlum í borginni mánudaginn 16. desember.

Um er að ræða þrjá menn en foringi þeirra, 24 ára, er undir áhrifum af hugmyndafræði samtakanna Ríki íslams að sögn APA-fréttastofunnar.

Grunur er um að ætlunin hafi verið að ráðast á jólamarkað fyrir framan Stefáns-dómkirkjuna í hjarta Vínarborgar milli jóla og nýárs.

Þá er talið að hópurinn hafi beint athygli sinni að Salzburg og stöðum í Þýskalandi, Frakklandi og Lúxemborg.

Ónafngreindur maður gaf lögreglu upplýsingar sem urðu til þess að hún beindi athygli sinni að foringja hópsins sem sat þá þegar í fangelsi eftir að hafa tvisvar sinnum reynt að komast til Sýrlands og ganga í lið Ríkis íslams.

Sagt er að þvert á fangelsisreglur hafi honum tekist að halda uppi sambandi í gegnum farsíma við þá sem liggja undir grun með honum.

Það var liður í leynimakki þeirra félaga að foringjanum yrði veitt aðstoð til að flýja úr fangelsinu.

Undir lok síðustu viku voru mennirnir tveir sem liggja undir grun, 25 og 31 árs, teknir fastir. Allir koma mennirnir þrír upprunalega frá Tjsetjeníu.

Til þessa hafa ekki verið framin meiriháttar hryðjuverk í Austurríki eins og til dæmis í Frakklandi, Bretlandi og Þýskalandi. Á hinn bóginn hafa hlutfallslega margir Austurríkismenn farið til útlanda í því skyni að ganga til liðs við íslamisk öfgasamtök.

 

Heimild: The Local Austria.

Skoða einnig

NATO-aðild Úkraínu til umræðu í Moldóvu og Osló

Í gær (1. júní) lauk tveggja daga óformlegum utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna í Osló. Þá var einnig …