Home / Fréttir / Villti um fyrir varaforsetanum, sagði af sér sem öryggisráðgjafi

Villti um fyrir varaforsetanum, sagði af sér sem öryggisráðgjafi

Michael Flyn
Michael Flyn

Michael Flynn, þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, tilkynnti afsögn sína mánudaginn 13. febrúar, aðeins 24 dögum eftir að hann tók formlega við embættinu. Hann baðst afsökunar á að hafa sagt Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, og öðrum embættismönnum rangt frá efni símtala sinna við sendiherra Rússa í Washington áður en hann tók formlega við embætti sínu.

Sean Spicer, blaðafulltrúi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, sagði þriðjudaginn 14. febrúar að forsetinn hefði „vikum saman“ vitað að Michael Flynn hefði blekkt embættismenn forsetans auk Mikes Pence varaforseta.

„Við hofum skoðað og metið þessi mál varðandi Flynn hershöfðingja daglega í nokkrar vikur til að komast að hinu sanna,“ sagði Spicer.

Það hafi þó ekki verið fyrr en mánudaginn 13. febrúar sem Trump hafi óskað eftir afsögn hans. Traust forsetans í garð Flynns hefði minnkað svo mikið að hann hefði talið nauðsynlegt að gera breytingu.

Föstudaginn 10. febrúar sagði Trump að hann kannaðist ekki við frásögn í The Washington Post  þar sem upplýst væri að Flynn hefði  látið hjá líða að skýra frá öllu sem hann sagði við rússneska sendiherrann í Washington um refsiaðgerðir gegn Rússum.

„Ég veit ekkert um þetta. Ég hef ekki séð það. Hvaða frásögn er það? Ég hef ekki séð hana. Ég skal skoða málið,“ sagði forsetinn við blaðamenn föstudaginn 10. febrúar.

Áður en Donald Trump var settur í embætti og Michael Flynn hóf störf sem þjóðaröryggisráðgjafi veltu menn fyrir sér tengslum Flynns við ráðamenn í Moskvu. Birst höfðu myndir af honum á netinu þar sem hann sat við hliðina á Vladimír Pútín Rússlandsforseta í hátíðarkvöldverði í boði rússneska ríkisfjölmiðilsins RT.

Leiðtogi repúblíkana í öldungadeild Bandaríkjaþings, Mitch McConnell, sagði að leyniþjónustunefnd öldungadeildarinnar mundi að líkindum kanna samskipti Flynns og rússneska sendiherrans.

Mánudaginn 13. febrúar áður en Flynn sagði af sér sagði Dmitríj Peskov, talsmaður Rússlandsforseta, að rússneskir sendiráðsmenn hefðu ekki rætt um refsiaðgerðir Bandaríkjastjórnar gegn Rússum. Þriðjudaginn 14. febrúar lýsti Peskov afsögninni sem „innanríkismáli“.

Í afsagnarbréfi sínu segir Flynn að hann hafi átt nokkur símtöl við rússneska sendiherrann á meðan hann bjó sig undir að hefja störf í skrifstofu forsetans í Hvíta húsinu. Flynn segist síðan hafa gefið Pence „ófullnægjandi upplýsingar“ um efni símtalanna.

„Því miður gerðist það óviljandi vegna þess hve hlutirnir gerðust hratt að ég gaf verðandi varaforseta og öðrum ófullnægjandi upplýsingar um efni símtala minna við rússneska sendiherrann,“ segir Flynn í bréfinu.

Tvisvar sinnum bað Flynn varaforsetann afsökunar á að hafa talið honum trú um að hann hefði ekki rætt um refsiaðgerðir gagnvart Rússum í símtölunum. Vegna þess að Flynn sagði Pence að hann hefði ekki rætt um refsiaðgerðirnar fullyrti varaforsetinn í mörgum sjónvarpsviðtölum að svo hefði ekki verið.

Nýverið breytti Flynn frásögn sinni á þann veg að ef til vill hefði hann rætt refsiaðgerðirnar við Rússana en hann gæti ekki fullyrt 100% að svo hefði verið.

Í blaðinu Washington Post var sagt frá því í liðinni viku að Flynn hefði rætt um afnám refsiaðgerða í símtali við Sergeij Kisljak sendiherra 29. desember – sama dag og Barack Obama, þáv. forseti, kynnti þær vegna afskipta Rússa af bandarísku forsetakosningunum. Símtölin voru tekin upp og yfirfarin af bandarískum embættismönnum, útskrift þeirra sýndi að Flynn hafði rætt refsiaðgerðirnar við rússneska sendiherrann.

Michael McFaul, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í Moskvu, sagði á Twitter að Flynn hefði ratað í ógöngur með því að villa um fyrir varaforsetanum.

Fréttir bárust um það mánudaginn 13. febrúar að bandaríska dómsmálaráðuneytið hefði fyrir nokkrum vikum varað embættismenn Trumps við því að Flynn hefði ekki skýrt rétt frá efni símtala sinna við Rússa.

Sally Yates, þáv. starfandi dómsmálaráðherra, sagði að Flynn kynni að hafa skapað sér þá stöðu gagnvart Rússum með símtölunum að þeir gættu beitt hann nauðung vegna þeirra. Yates var síðar rekin fyrir andstöðu við fyrirmæli Trumps um að loka landamærum Bandaríkjanna fyrir borgurum sjö múslimalanda.

Trump skipaði Keith Kellogg, fyrrv. hershöfðingja, til að taka að minnsta kosti til bráðabirgða við embætti Flynns

Heilmild: dw.de

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …