Home / Fréttir / Vill verja rússneskt þjóðaröryggi á norðurslóðum

Vill verja rússneskt þjóðaröryggi á norðurslóðum

 

Dmitríj Medvedev

Dmitríj Medvedev, fyrrverandi forseti og forsætisráðherra Rússlands, núverandi varaformaður öryggisráðs Rússa, segir að rússnesk stjórnvöld verði að nýta formennsku sína í Norðurskautsráðinu til að halda fram þjóðaröryggishagsmunum sínum á norðurslóðum.

„Það er ekkert launungarmál að fjöldi ríkja reynir á markvissan hátt að þrengja að athafnafrelsi Rússa á norðurslóðum og ríkin sækjast eftir jarðefnaauðlindum í Norður-Íshafi og vilja hafa stjórn á strategískum skipa- og flugferðum á svæðinu,“ sagði Medvedev nú í vikunni á fundi norðurslóðanefndar rússneska öryggisráðsins.

Hann sagði þessi afskipti útlendinga „algjörlega óviðunandi“, í þeim fælist bein ógn við þjóðaröryggishagsmuni Rússa.

„Þetta getur leitt til versnandi ástands á svæðinu,· sagði Medvedev og þess vegna yrðu Rússar að „halda áfram að styrkja norðurslóðaherinn með nýtísku vopnabúnaði“.

Með því yrði á öflugan hátt brugðist við „tilraunum erlendra ríkja til að grafa undan stöðugleika á norðurslóðum og til að undirbúa jarðveginn fyrir and-rússneskar ögranir þar“.

Norðurslóðanefnd öryggisráðsins kom til sögunnar í ágúst 2020. Hún starfar við hlið annarrar rússneskrar norðurslóðanefndar á vegum ríkisstjórnar Rússlands.

Dmitríj Medvedev sagði að formennska í Norðurskautsráðinu gæfi Rússum færi á að styrkja gæslu þjóðaröryggishagsmuna sinna á svæðinu. Hann lagði jafnframt áherslu á að nauðsynlegt væri að standa vörð um Norðurskautsráðið enda væri það lykilvettvangur þegar teknar væru mikilvægar ákvarðanir um norðurskautssvæðið.

Hann hvatti til þess að Rússar sæktu markvisst fram við leit að nýjum olíu- og gaslindum á svæðinu, þeir ættu að reisa risavaxin samgöngu- og orkumannvirki þar ýta undir siglingar eftir Norðurleiðinni milli Atlantshafs og Kyrrahafs.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti er formaður öryggisráðs Rússlands en Dmitríj Medvedev varð varaformaður þess fyrri hluta árs 2020. Hann hefur áður látið orð falla opinberlega um norðurslóðamálefni. Í október 2020 sat hann fund norðurslóðanefndar ráðsins og hafði stór orð gegn Bandaríkjamönnum og NATO-þjóðum vegna afstöðu þeirra til norðurslóðamála og gaf til kynna a’ þjóðaröryggismál yrðu liður í starfi Norðurskautsráðsins undir forystu Rússa.

 

Heimild: Barents Observer

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …