Home / Fréttir / Vill Kór rauða hersins í söngvakeppni Evrópu

Vill Kór rauða hersins í söngvakeppni Evrópu

 

Kór rauða hersins. nú Alexandrov-samkórinn
Kór rauða hersins. nú Alexandrov-samkórinn

Listrænn stjórnandi hins opinbera Kórs rauða hersins sem var stofnaður í tíð Sovétríkjanna hefur lýst áhuga á að kórinn verði fulltrúi Rússa í Eurovison, söngvakeppni Evrópu, í Úkraínu árið 2017. Yfirlýsinguna ber að skoða í ljósi reiðinnar sem braust út í Rússlandi að kvöldi laugardags 14. maí þegar Jamala, fulltrúi Úkraínu, sigraði söngvakeppnina.

Kórinn ber nú nafnið Alexandrov-samkórinn og er enn hluti af rússneska hernum. Gennadíj Satsjenjuk, listrænn stjórnandi kórsins, sagði mánudaginn 16. maí útvarpsstöð í Moskvu: „Þegar söngvakeppnin var í Moskvu fyrir fáeinum árum komum við þar fram með eitt atriði, fáum við fleiri tækifæri til þátttöku í söngvakeppni Evrópu erum tilbúnir til að nýta þau.“

Hann sagði að samkórinn mundi laga sig að kröfum keppninnar. „Við erum til að ræða hvers konar skipulag á þátttöku okkar í keppninni,“ sagði hann.

Jamala, söngkona frá Úkraínu, vann keppnina í ár með laginu 1944 þar sem vísað er til þess sem gerðist þegar Josef Stalín, einræðisherra í Sovétríkjunum, gaf fyrirmæli um brottflutning tatara frá Krímskaga.

Rússneski söngvarinn Sergei Lazarev lenti í þriðja sæti í keppninni. Varð það til þess að rússneskir stjórnmálamenn sögðu um pólitísk úrslit að ræða.

Rússneski stjórnmálamaðurinn Frankts Klintsevitsj sagði að Jamala og lag hennar hefði ekki unnið keppnina heldur hefði pólitíkin haft betur en listin.

Jamala sagði í febrúar 2016 að lagi hennar væri ætlað að draga athygli að örlögum tatara en þar er ekki minnst á innlimun Rússa á Krímskaga í mars 2014.

„Það var erfitt fyrir mig að rifja upp þessar minningar hvað eftir annað en ég skil nauðsyn þess núna. Tatarar á Krímskaga eru í öngum sínum og þarfnast aðstoðar,“ sagði Jamala.

Í apríl 2016 féllst dómstóll í rússnesku Krím á kröfu saksóknara frá Moskvu um að banna þing tatara í Krím.

Heimild: dw.de

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …