Home / Fréttir / Vill ekki framsal Puigdemont – í raun dæmdur til útlegðar

Vill ekki framsal Puigdemont – í raun dæmdur til útlegðar

Baráttuspjald í þágu Puigdemonts.
Baráttuspjald í þágu Puigdemonts.

 

Spænskur hæstaréttardómari sem stjórnar málinu gegn stjórnmálamönnum sem átti hlut að einhliða sjálfstæðisyfirlýsingu Katalóníu í október 2017 hefur hafnað niðurstöðu þýsks dómstóls sem úrskurðaði að fyrrverandi forseti héraðsstjórnar Katalóníu, Carles Puigdemont, skyldi framseldur til Spánar vegna ásakana um að hafa misfarið með opinbert fé en ekki vegna ásakana um að hafa staðið að uppreisn. Komi Puigdemont til Spánar verður hann handtekinn.

Dómarinn felldi einnig niður evrópsku handtökuskipunina á hendur Puigdemont og fimm öðrum stjórnmálamönnum sem flýðu Spán til að forðast frelsissviptingu vegna aðildar að aðskilnaðarákvörðunum í Katalóníu.

Puigdemont flúði upphaflega til Belgíu til að komast hjá handtöku á Spáni vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar um sjálfstæði Katalóníu 1. október 2017 og sjálfstæðisyfirlýsingarinnar sem héraðsþingið samþykkti eftir atkvæðagreiðsluna. Hæstiréttur Spánar telur að hér hafi verið um brot á stjórnarskrá Spánar að ræða.

Fyrr á þessu ári var Puigdemont handtekinn þegar hann átti leið um Þýskaland á ferðalagi frá Finnlandi til Belgíu. Þýska lögreglan vísaði til evrópsku handtökuskipunarinnar á hendur honum. Pablo Llarena, spænski hæstaréttardómarinn, hefur síðan reynt að fá hann framseldan með vísan til ásakana um að hann hafi staðið að uppreisn og misfarið með opinbert fé. Dómstóllinn í Slesvík-Holstein sem fer með framsalsmálið taldi skorta sannanir til að framselja hann með vísan til ásakana um uppreisn – í Þýskalandi jafngildir slíkt brot landráðum. Dómararnir samþykktu hins vegar framsal hans með vísan til refsiminna brots um að hafa misfarið með opinbert fé.

Llarena dómari segir í úrskurði sínum sem birtur var föstudaginn 20. júlí að þýski dómstóllinn hafi vegið að valdi sínu sem rannsóknardómara. Dómarinn ákvað að skjóta málinu ekki til ESB-dómstólsins til að fá úr því skorið hvort þýsku dómararnir hefðu farið út fyrir umboð sitt. Hann telur að þýski dómstóllinn hefði átt að gera það og tryggja að niðurstaða fengist sem næði til allra ESB-landa.

Spænski hæstaréttardómarinn lagði áherslu á að þýski dómstóllinn hefði ekki sýnt neinn skilning á eðli atburða sem hefðu getað sundrað stjórnskipuninni á Spáni. Þá hefðu þýsku dómararnir getið sér til um niðurstöðu í dómsmáli sem félli á engan hátt undir lögsögu þeirra, þeir hefðu haft inntak evrópsku handtökutilskipunarinnar að engu, svo og fordæmi frá ESB-dómstólnum og leiðbeiningar um evrópsku handtökutilskipunina frá framkvæmdastjórn ESB.

Þótt dómarinn hafi fellt niður kröfuna um evrópska handtökuskipun á hendur katalónsku stjórnmálamönnunum sex er enn í gildi krafa um að þeir verði handteknir á Spáni.

Sé Puigdemont fundinn sekur um uppreisn er unnt að dæma hann í allt að 30 ára fangelsi. Ákæran um þetta er grundvallaratriði í málsókninni gegn katalónsku stjórnmálamönnunum. Í raun má túlka niðurstöðu þýska dómstólsins á þann veg að ekki sé unnt að dæma Puigdemont á Spáni fyrir þetta brot.

Í niðurstöðu sinni segir Llarena að þýski dómstóllinn hefði átt að halda sig við það eitt að staðfesta hvort staðreyndir málsins eins og þeim er lýst feli í sér refsiverðan verknað í Þýskalandi og hvort réttlætanlegt sé að rannsaka þær undir forsjá dómstóla á þann veg sem til dæmis hann heimilaði sem spænskur hæstaréttardómari.

Spænski dómarinn telur að dómstóllinn í Slesvík-Holstein hafi litið á orð Puigdemonts sem sannaðar staðreyndir þótt þýsku dómararnir hafi ekki haft aðgang að öðrum sönnunargögnum sem séu hluti rannsóknarinnar á Spáni. Þjóðverjarnir hafi komist að niðurstöðu um það sem þeir töldu staðreyndir málsins og hvað vakti fyrir aðilum þess. Þetta hafi þeir gert á villandi forsendum.

Ákvörðun spænska dómarans jafngildir því í raun að Puigdemont er dæmdur til að dveljast utan Spánar, hann verður tekinn fastur um leið og hann stígur inn fyrir spænsku landamærin. Þetta

ástand kann að vara í 20 ár eða þar til ákæran um uppreisn fyrnist. Í þessu felst jafnframt að Puigdemont verður ekki sóttur til saka í málaferlum sem kynnu að spilla stöðu annarra forystumanna sjálfstæðissina sem flúðu ekki frá Spáni og bíða þess nú í varðhaldi að mál þeirra verði tekin fyrir í réttarsalnum.

Heimild: El País

 

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …