Home / Fréttir / Vilji til að efla samstarf Frakka og Þjóðverja enn frekar

Vilji til að efla samstarf Frakka og Þjóðverja enn frekar

Konrad Adenauer Þýskalandskanslari og Charles de Gaulle Frakklandsforseti rituðu undir Elysée-sáttmálann 22. janúar 1963.
Konrad Adenauer Þýskalandskanslari (t.v.) og Charles de Gaulle Frakklandsforseti rituðu undir Elysée-sáttmálann 22. janúar 1963.

Efnt var til samtímis funda í franska og þýska þinginu að morgni mánudags 22. janúar til að minnast 55 ára afmælis Elysée-sáttmálans sem miðar að því að efla samstarf Frakka og Þjóðverja. 

Í tilefni afmælisins samþykkti þýska þingið ályktun um að enn skyldu tengslin við Frakkland dýpkuð með gerð nýs Elysée-sáttmála. Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Angela Merkel Þýskalandskanslari hafa heitið því að í ár verði lögð drög að nýjum sáttmála um samstarf þjóðanna. 

Andreas Jung, þingmaður Kristilegra demókrata (CDU), er formaður fransk-þýskrar þingmannanefndar sem vann að gerð ályktunar þýska þingsins. Hún nýtur stuðnings þingmanna úr öllum flokkum í Þýskalandi og einnig í Frakklandi. Jung segir að nýr sáttmáli eigi ekki aðeins að snúast um samstarf þjóðanna heldur eigi jafnframt „ný stjórnmálaleg skuldbinding“ að felast í honum. 

Í ályktuninni felast boð til Macrons um að Þjóðverjar séu sömu skoðunar og hann um nauðsyn umbóta á Evrópusambandinu samhliða aukinni samvinnu þjóðanna tveggja. Þar eru ríkisstjórnir landanna hvattar til að vinna áfram að mörgum sameiginlegum verkefnum og tíunduð eru svið sem hafa árum saman lotið sameiginlegri forsjá. Þar má nefna fransk-þýskar starfsmenntamiðstöðvar og fjölgun tvítyngdra skólabekkja auk mannvirkjagerðar í fransk-þýskum landamærahéruðum og nánara rafræns samstarfs. Minnst er á sameiginlega rannsóknarstöð á sviði gervigreindar. 

Jung bindur miklar vonir við efnahagssamstarf þjóðanna í framtíðinni. Hann segir að í fyrsta sinn hafi stjórnvöld landanna skuldbundið sig til samvinnu í þessu efni sem gengur lengra en mælt er fyrir í reglum ESB um innri markaðinn og snerti lög um viðskipti, gjaldþrot og skatt á fyrirtæki.  

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …