Home / Fréttir / Vilja evrópska Marshall-áætlun vegna veirunnar

Vilja evrópska Marshall-áætlun vegna veirunnar

Ursula von der Leyen.
Ursula von der Leyen.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hvetur til þess að við gerð fjárlaga fyrir ESB verði hugað að verulegum útgjöldum til fjárfestinga vegna afleiðinga COVID-19-faraldursins. Forsætisráðherra Spánar er sömu skoðunar og vill að gripið verði til „styrjaldar-efnahagsaðgerða“ og síðan endurreisnaráætlunar.

Von der Leyen ritar grein í þýska blaðið Welt am Sonntag 5. apríl og segir þar: „Við þurfum Marshall-áætlun fyrir Evrópu.“ Með þeim orðum vísar hún til endurreisnaráætlunar undir forystu Bandaríkjastjórnar á árunum 1948-1952 til að reisa Evrópu úr rústum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Hún sagði að fjárlög ESB nytu stuðnings allra aðildarríkjanna sem tæki til að draga úr mismunun mill þjóða og héraða í anda samstöðu og haga yrði gerð fjárlaganna nú á þann veg að þau auðvelduðu aðgerðir til að rétta við efnahaginn eftir COVID-19-áfallið.

„Milljarðarnir mörgu sem nú er nauðsynlegt að nýta í því skyni að komast hjá meiri hörmungum munu tengja saman kynslóðir,“ segir hún í greininni. Hvetur hún til þess að vegna þess tjóns sem orðið er styrki þjóðir Evrópu samstöðu sín á milli.

Í grein í þýska blaðinu Frankfurter Allgemeine Zeitung hvatti Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, einnig til þess að hugað yrði að áætlun í anda Marshall-áætlunarinnar. Hann vill jafnframt að á vegum ESB verði tafarlaust gripið til efnahagsaðgerða eins og um styrjöld sé að ræða.

„Evrópa verður að grípa til styrjaldar-efnahagsaðgerða og gera ráðstafanir til að verja og endurreisa evrópskan efnahag,“ segir Sanchez. Þetta verði að gera tafarlaust til að létta veiruskuldum að fjölda þjóða. Veiran virti engin landamæri og það ættu fjárhagslegar gagnráðstafanir ekki heldur að gera.

Ágreiningur er innan evru-svæðisins um hvernig eigi að bregðast við fjárhagslega áfallinu vegna faraldursins. Fjármálaráðherrar evru-hópsins koma saman til fundar þriðjudaginn 7. apríl og leita leiða til samkomulags.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …