Home / Fréttir / Vilja bólusetningarleyfi strax til að fara af stað í desember

Vilja bólusetningarleyfi strax til að fara af stað í desember

health-coronavirusvaccine

Bandaríska lyfjafyrirtækið Pfizer og þýski samstarfsaðili þess, BionTech, óska eftir því föstudaginn 20. nóvember við bandarísku matvæla- og lyfjaeftirlitsstofnunina FDA að fá neyðarviðurkenningu á COVID-19-bóluefni fyrirtækjanna.

Fáist viðurkenningin er markmiðið að unnt verði að hefja bólusetningu áhættuhópa í Bandaríkjunum strax um miðjan desember.

Dr. Albert Bourla, forstjóri og stjórnarformaður Pfizer, segir í tilkynningu 20. nóvember að fyrirtækinu hafi nú tekist að fá heildarmynd bæði af áhrifum og öryggisþáttum bóluefnisins. Sé fyrir hendi traust á að bóluefnið skili þeim árangri sem að er stefnt.

Í fréttum er greint frá því að Pfizer og BionTech hafi þegar sent leyfisumsóknir til margra landa, þar á meðal heilbrigðisyfirvalda í ESB og Bretlandi. Fyrirtækin þurfi aðeins nokkurra klukkustunda fyrirvara áður en bóluefnið sé afgreitt frá þeim eftir að leyfi fæst.

Það hefur valdið áhyggjum að bóluefnið frá Pfizer og BionTechs verði að flytja og geyma í 70 gráðu frosti og þetta kunni að skapa vanda í sjúkrahúsum víða um heim.

Í tilkynningu sinni föstudaginn 20. nóvember segja fyrirtækin að senda megi bóluefnið til dreifingarmiðstöðva þar sem unnt sé að geyma það í allt að sex mánuði. Auk þess hefur Pfizer þróað og smíðað sérstakan umbúnað sem tryggir að unnt er að flytja og geyma bóluefnið í allt að 15 daga í 70 gráðu frosti. Þar er að finna snjallbúnað sem sýnir stað og kuldastig efnisins. Rétt fyrir notkun má geyma efnið í 2 til 8 stiga hita í allt að fimm daga.

Í fyrri viku birtu Pfizer og BionTech gögn sem sýndu 90% virkni bóluefnisins og miðvikudaginn 18. nóvember sýndu mælingar 95% virkni þess.

Um 44.000 manns tóku þátt í tilraunum vegna efnisins og reyndist það vel fyrir alla aldurshópa og alla kynþætti.

 

 

Skoða einnig

Jevgeníj Pirogsjin.

Wagner-foringi skapar spennu í Kreml

Jevgeníj Prigosjín, foringi alræmdu Wagner-málaliðanna, hefur opinberlega hafnað lykilatriðum í útlistun Kremlverja á tilefni stríðsins …