
Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, ætlar að fara á milli höfuðborga ESB-ríkjanna og kynna fyrir ráðamönnum þar tillögu sína um breytingu á Schengen-samkomulaginu. Tillögur hans eru aðrar en þær sem framkvæmdastjórn ESB hefur viðrað.
Orbán kynnti 10 liða tillögu sína um það sem hann kallar Schengen-2.0 á fundi alþjóðasamtaka miðdemókrata Centrist Democrat International (CDI) í Lissabon föstudaginn 15. apríl.
Orbán segir að hann hafi samið tillögu sína vegna þess að framkvæmdastjórn ESB fari villur vega í Schengen-málinu. „Við verðum að gæta landamæra okkar,“ er meginkjarni hugmynda Orbáns.
Hann reifar breytingartillögu sína fyrst bráðlega á fundi með forsætisráðherrum Visegrad-ríkjanna (Ungverjalands, Tékklands, Slóvakíu og Póllands). Í næstu viku heldur Orbán til Þýskalands og annarra ESB-landa.
Hann telur til dæmis óviðunandi að embættismenn í Brussel ákveði hve margir flóttamenn skuli setjast að í einstökum löndum. Gert er ráð fyrir því í tillögum framkvæmdastjórnarinnar.
Í mars fór Orbán til fundar við Horst Seehofer, leiðtoga kristilegra sósíalista (CSU) í Bæjaralandi. Seehofer telur að Merkel hafi slakað um of á stefnunni gagnvart farandfólki en frá ársbyrjun 2015 hafa rúmlega 1,1 milljón manna komið til Þýskalands.
Stjórnir ESB-landa í austurhluta Evrópu hafa mótmælt hugmyndum um skyldu-móttöku farandfólks að ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB. Í þessum löndum er engin reynsla fyrir hendi vegna móttöku þessa fólks. Slóvakar hafa til dæmis verið beðnir að taka á móti 2.287 manns þar af líklega mörgum múslimum. Stjórnvöld í Bratislava hafa hins vegar sagt að þau vilji aðeins taka á móti 200 manns og helst kristnum.
Milos Zeman, orðglaður forseti Tékklands, hefur varað við laumuliðsmönnum Ríkis íslamds meðal farandfólks og í búsetukjörnum múslima sem geti breyst í kjörlendi óþjóðalýðs. Hann hefur líkt straumi farandfólks til Evrópu við tsunami-flóðbylgjuna á Indlandshafi árið 2004 sem varð hundruð þúsunda manna að aldurtila.
Viktor Orbán fól í september 2015 her Ungverjalands, föngum og atvinnulausum að reisa girðingu á landamærum Ungverjalands til að hindra för fólks inn í landið. Var girðingin eða varnarveggurinn reistur á nokkrum vikum. Á þennan hátt lokaði Orbán Ungverjalandi fyrir farandfólki.
Grunnboðskapur hans er sá sami og áður að koma hundruð þúsunda flótta- og farandfólks frá Asíu, Afríku og Mið-Austurlöndum til Evrópu sé árás á krisitilegt velferðarkerfi álfunnar.