Home / Fréttir / Vígamenn frá Sýrlandi leika lausum hala í Þýskalandi

Vígamenn frá Sýrlandi leika lausum hala í Þýskalandi

Sýrlenskt og þýskt vegabréf.
Sýrlenskt og þýskt vegabréf.

Frá því er sagt í Der Spiegel laugardaginn 2. september að tugir vígamanna frá hryðjuverkasamtökum í Sýrlandi  hafi sótt um hæli í Þýskaland. Í fréttinni segir að þýsk öryggisyfirvöld hafi stofnað sérsveit til að glíma við vígamennina.

Talið er að tæplega 60 fyrrverandi vígamenn frá Sýrlandi í hópi sem tengdist al-Kaída hafi leitað til Þýskalands í gervi flóttamanna. Vígamennirnir eru sagðir hafa verið félagar í sveit manna sem kenndi sig við Qwais al-Qorani og lét víða að sér kveða í átökunum í Sýrlandi.

Í Der Spiegel segir að hópurinn hafi fyrst barist við hlið Frjálsa sýrlenska hersins en síðan tekið saman við al-Nustra fylkinguna sem er tengd al-Kaída.

Þá er Owais al-Qorani hópurinn einnig sakaður um að hafa tengst Daesh (Ríki íslams) í Norður-Sýrlandi.

Der Spiegel segir að félagar í hópnum hafi að mati þýskra öryggisstofnana tekið þátt í „fjöldamorðum á almennum borgurum og sýrlenskum hermönnum“. Að minnsta kosti 300 fangar hafi verið teknir af lífi með tilstyrk hópsins.

Sérsveit á vegum þýskra öryggisstofnana er sögð rannsaka þá einstaklinga sem komið hafa til Þýskalands og liggja undir grun um að hafa starfað í hópi vígamannanna. Fréttir herma að minnsta kosti 25 hafi þegar sætt rannsókn og um 30 leiki enn lausum hala í Þýskalandi.

Einn þeirra sem liggja undir grun er að sögn Der Spiegel fyrrverandi foringi í vígamannahópnum. Hann er sagður hafa komist inn í Þýskaland í Bremen árið 2014. Hann á að hafa tekið þátt í aftökum á öskuhaug þar sem 36 lögreglumenn, opinberir starfsmenn og hermenn voru drepnir meðal annars með afhöfðun.

Við rannsókn máls hans fann þýska lögreglan skilaboð frá honum til vinar á WhatsApp þar sem stóð: „Guð minn, þeir mundu atvik sem ég hafði sjálfur gleymt.“ Vísaði hann þar til samtala við landa sína sem hann hafði hitt í Þýskalandi. Mál hans verður flutt í þýskum réttarsal fyrir lok september.

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …