Home / Fréttir / Viðurkenndur tilgangur skilyrði komu til Danmerkur

Viðurkenndur tilgangur skilyrði komu til Danmerkur

rb-plus-midlertidig-graensekontrol-kan-vare-i-to-aar

Danska ríkisstjórnin ákvað föstudaginn 13. mars að loka landamærum Danmerkur tímabundið frá kl. 12.00 laugardaginn 14. mars.

Þegar Mette Frederiksen forsætisráðherra kynnti ákvörðunina á blaðamannafundi sagði hún:

„Ferðamenn og útlendingar, sem geta ekki sannað að heimsókn þeirra til Danmerkur þjóni viðurkenndum tilgangi, fá ekki leyfi til að fara inn í landið. Danir hafa ávallt opin aðgang að landinu.“

Ráðherrann sagði þetta ekki hafa áhrif á innflutning á matvælum, lyfjum og öðrum nauðsynjavörum til Danmerkur.

Lögreglumenn og hermenn sinna landamæravörslu. Á þessu stigi er ætlunin að landamæraeftirlitð verði í gildi fram yfir páska, það er til og með 13. apríl.

„Við höfum greint nágrönnum okkar Þjóðverjum, Svíum og Norðmönnum frá þessari ákvörðun,“ sagði forsætisráðherrann.

Markmið ríkisstjórnarinnar er að stemma stigu við útbreiðslu kórónaveirunnar.

Eftirlit verður á landamærum Danmerkur, við ferjur og á flugvöllum. Þar sem sett er skilyrði fyrir heimild til að fara inn í landið verður tilgangur komunnar að vera:

  • vegna starfa í Danmörku;
  • vegna vöruflutnings til Danmerkur;
  • vegna ferðar til Danmerkur til að sækja vöru – t.d. dýr til slátrunar;
  • vegna umgengnisréttar með barni í Danmörku;
  • vegna heimsóknar til mjög veikra ættmenna í Danmörku.
  • Venjuleg fjölskylduheimsókn fellur ekki undir viðurkenndan tilgang heimsóknar til Danmerkur.
  • Í hverju tilviki fyrir sig verður lagt mat á hvort um viðurkenndan tilgang heimsóknar til Danmerkur.

Nick Hækkerup dómsmálaráðherra sagði að landamæraverðir yrðu sýnilegir við allar helstu landamæraleiðir. Hann telur víst að vegna aðgerðanna myndist biðraðir við landamærin.

„Það verða bílalestir við landamæri okkar og í flugstöðvum. Mörgum flug- ferju- og lestarferðum verður aflýst,“ sagði Nick Hækkerup.

Thorkild Fogde, ríkislögreglustjóri Dana, tók þátt í blaðamannafundinum og sagði: „Þetta snertir fyrst og fremst dönsku landamærin gagnvart Þýskalandi og Svíþjóð og að minna leyti Noregi.“

Áður en herta landamæraeftirlitið var kynnt ráðlagði danska utanríkisráðuneytið öllum sem veltu fyrir sér utanlandsferð að nauðsynjalausu að halda kyrru fyrir í Danmörku.

„Leyfið mér að segja það umbúðalaust: Velti einhver fyrir sér að fara til útlanda, gleymið því. Þið í útlöndum, komið heim eins fljótt og verða má,“ sagði Jeppe Kofod utanríkisráðherra.

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …