Íbúar Achin-héraðs í Afganistan þar sem Bandaríkjamenn köstuðu risasprengjunni Massive Ordinance Air Blast eða MOAB – uppnefnd móðir allra sprengna – sögðu sprenginguna þá stærstu sem þeir hefðu nokkru sinni séð. Afganir eru vissulega engir nýgræðingar þegar sprengingar eru annars vegar, þeir hafa kynnst mörgum þeirra áratugum saman, þó einkum þegar Bandaríkjamenn réðust inn í land þeirra árið 2001 sem leiddi til þess að stjórn Talibana féll, segir í upphafi skýringar þýsku fréttastofunnar DW föstudaginn 14. apríl á risasprengingunni.
Attiqullah Amarkhail, fyrrv. afganskur hershöfðingi, búsettur í Kabúl sagði DW að hann teldi ónauðsynlegt að nota svo stóra sprengju gegn litlum hópi vígamanna Daesh (Ríkis íslams). Að drepa 36 manns með 11 tonnum af sprengjuefni væri sóun á skotfærum nema önnur skotmörk væru einnig í sjónmáli.
Bandaríkjamenn telja að milli 600 og 800 vígamenn Daesh séu í Afganistan, einkum í Nangarhar-fylki. Hryðjuverkasamtökin eru miklu öflugri og virkari í Írak og Sýrlandi. Bandaríkjamenn hafa aldrei notað MOAB-sprengjuna í þessum Mið-Austurlöndum.
Fyrstu fréttir um vígamenn Daesh í Afganistan bárust snemma árs 2015. Á árinu 2014 viðurkenndu embættismenn ríkisstjórna Afganistans og Bandaríkjanna að hryðjuverkasamtök leituðu að liðsmönnum í austurhluta Afganistans og nýttu sér tómarúmið á æðstu stöðum innan hreyfingar Talíbana.
„Sé þessi hópur ekki stöðvaður hér [í Nangarhar-fylki] verður hann ekki aðeins hættulegur í Afganistan heldur einnig í öðrum löndum svæðisins,“ sagði íbúi Achin-héraðs við DW árið 2015 og hvatti til þess að ríkisstjórn Afganistans tæki þátt í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum.
DW segir að ástandið í Achin-héraði í Nangarhar, austurfylki Afganistans, sem liggur að Pakistan og svæði ættflokka þar, líkist því sem er í héruðum Sýrlands og Íraks þar sem Daesh ræður. Félagar í samtökunum stjórna stórum hluta héraðsins, þeir drepa andstæðinga sína, stela og ýta undir hræðslu meðal íbúanna með nýopnaðri áróðursútvarpsstöð sem heitir Kalífat-útvarpið.
Stöðina nota félagar í Daesh til að hóta þeim grimmilegum refsingum sem lýsa andstöðu við Abu Bakr al-Baghdadi, æðsta mann kalífaríkisins sem þeir tóku sér vald til að stofna.
„MOAB var greinilega ætlað að senda skýr skilaboð um að Bandaríkjamenn munu elta uppi vígamenn Daesh hvar sem þeir kunna að halda sig, hvort heldur í Afganistan eða annars staðar,“ sagði Michael Kugelman, sérfræðingur í málefnum Afganistan hjá Woodrow Wilson Center for Scholars í Washington, við DW. „Að því sögðu skulum við ekki gefa okkur að þessi sprengja sé eitthvert fordæmi um árásir á Daesh annars staðar í veröldinni.“
Bandaríski sérfræðingurinn viðurkennir að vegið hafi verið að veru liðsmanna samtakanna í Nangarhar undandarna mánuði. „Afganir og Bandaríkjamenn hafa sameiginlega staðið að því um nokkurt skeið að uppræta vígamenn Daesh þar, raunar náðu þeir fjölmörgum vígamönnum fyrr í þessari viku á þeim slóðum þar sem sprengjunni var kastað. Tilfinning mín er að sprengjunni hafi verið ætlað að útrýma þeim vígamönnum sem komust undan í fyrri aðgerð Bandaríkjamanna og Afgana og leituðu skjóls í jarðgöngunum sem voru skotmörk sprengjunnar,“ sagði Kugelman.
Sérfræðingar segja að með því að sprengja MOAB í Afganistan hafi Bandaríkjamenn viljað senda skilaboð til Pakistana nágranna Afgana. Margir stefnumótendur í Washington telji að Pakistanir styðji vígamenn í Afganistan, þar á meðal Talíbana og Daesh.
Þótt fáir í Afganistan séu í Daesh er hugsanlegt að samtökin fái aðstoð og liðsauka frá Pakistan. Undanfarna mánuði hefur Daesh eignað sér nokkrar banvænar árásir í Pakistan.
Sunni-múslimar hafa getað safnað liði í Pakistan. Stjórn Afganistans hefur einnig hvað eftir sakað stjórn Pakistans um að styðja Talíbana og aðra vígahópa og um að senda þá til Afganistans til að grafa undan ríkisstjórninni.
Ýmsum finnst áhugavert að Bandaríkjamenn skyldu hafa ákveðið að nota stærstu sprengjuna í vopnabúri sínu fyrir utan kjarnorkusprengju á sama tíma og Rússar efna til ráðstefnu um Afganistan í Moskvu.
Fulltrúar frá 12 ríkjum, þ. á m. Afganistan, Kína, Indlandi, Íran og Pakistan, tóku þátt í ráðstefnunni föstudaginn 14. apríl. Bandaríkjastjórn var boðið að senda fulltrúa en hafnaði boðinu.
Í desember 2016 komu fulltrúar frá Pakistan, Kína og Rússlandi saman til fundar í Moskvu til að ræða stöðuna í Afganistan án þess að bjóða afgönskum þátttakendum að koma.
Samskipti ríkja á sviði stjórnmála og hermála breytast hratt í suðurhluta Asíu. Bandaríkjamenn og Indverjar sem áttu ekki samleið í kalda stríðinu efla samskipti sín á sviði hermála og viðskipta um leið og ýmsir kvíða vaxandi hlut Kínverja á svæðinu, einkum á umdeildu svæði á Suður-Kyrrahafi. Á hinn bóginn vex ágreiningur milli ráðamanna í Islamabad og Washington sem voru samherjar í andstöðu við Sovétstjórnina á sínum tíma og unnu saman í Afganistan-stríðinu á níunda áratugnum. Samtímis því sem allt þetta gerist leitast Pakistanar og Rússar við að stilla saman strengi sína, í fyrra efndu þessir gömlu kalda-stríðs-óvinir til sameiginlegrar heræfingar í fyrsta sinn í sögunni.
Þessar stórpólitísku breytingar hafa einnig hvatt Pakistana til að efla enn gömul tengsl sín við Kínverja. Kínverska stjórnin eykur viðskipta- og hernaðarsamvinnu við stjórn Pakistans sem mótvægi við aukin tengsl milli stjórnanna í Nýju Delhí og Washington.
Sérfræðingar segja að Bandaríkjamenn vilji ekki að Rússar og Kínverjar auki viðveru sína og áhrif í Afganistan með aðstoð Pakistana og Írana. Þeir telja að Nangarhar-sprengingin hafi verið skilaboð Trump-stjórnarinnar til ráðamanna þessara landa um að þeir skuli ekki líta á frekar lágt ris á Bandaríkjamönnum í Afganistan sem veikleikamerki af þeirra hálfu.
„Bandaríkjamenn minna Rússa og Kinverja á hernaðarmátt sinn. Tímasetning MOAB-sprengingarinnar skiptir mjög miklu vilji menn átta sig á stöðunni. Moskvumenn hafa boðið til ráðstefnu um Afganistan og Bandaríkjamenn senda viðvörun til allra þátttakenda í henni,“ segir Afgan-sérfræðingurinn Amarkhail.
Hann telur hins vegar að Nangarhar-sprengingin muni skapa aukinn öryggisvanda í Afganistan.
„Bardagahóparnir munu nota þessa sprengingu til að virkja fleiri vígamenn.“