
Meira en 11.600 hermenn frá 17 löndum taka þátt í heræfingunni Joint Warrior sem stjórnað er frá bresku flotastöðinni í Clyde i Skotlandi og stendur í tvær vikur frá 21. apríl til 4. maí. Er hún ein mesta sinnar tegundar í Evrópu.
Gavin Williamson, varnarmálaráðherra Breta, sagði að með æfingunni væri tekist á við margvíslegar og auknar hættur sem steðjuðu að Bretlandi. Væri ómetanlegt að njóta samstarfs við 16 aðrar þjóðir til að gera það á sem öflugastan hátt.
Til æfinga af þessu tagi er stofnað annað hvort ár. Að þessu sinni senda meðal annars þessi ríki herlið til samstarfs við Breta: Bandaríkin, Danmörk, Eistland, Holland, Lettland, Litháen, Spánn og Svíþjóð.
Í ár eru meðal annars æfð tilvik þar sem nokkrar þjóðir deila um ráð yfir auðlindum og landsvæðum, æfðar eru aðgerðir gegn hryðjuverkamönnum og gegn smyglurum; látið reyna á upplýsingahernað og brottflutning fólks.
Innan æfingarinnar rúmast aðgerðir í lofti, á landi og sjó auk þess sem litið er inn í netheima.