
Angela Merkel Þýskalandskanslari og Vladimir Pútín Rússlandsforseti sögðu eftir fund sinn í Sotsjí í Rússlandi þriðjudaginn 2. maí að fyrirliggjandi friðarsamkomulag frá Minsk væri eina leiðin til friðar í Úkraínu.
Þetta var fyrsti fundur þeirra í Rússlandi síðan árið 2015 en Merkel fer nú um og hittir leiðtoga G20-ríkjanna fyrir fund þeirra í Hamborg í júlí. Fréttamenn segja að andrúmsloftið hafi verið við frostmark í viðræðum Merkel og Pútíns í rússneska sólbaðsbænum.
Friðarsamkomulagið frá Minsk hefur ekki haldið og hvatti Merkel til þess að Rússar virtu það en Pútín skellti skuldinni á stjórn Úkarínu.
Merkel hvatti Pútín einnig til að tryggja réttarstöðu samkynhneigðra karla í Tsjetjeníu í Norður-Kákasus.
Utanríkismálaritstjóri Frankfurter Allgemeine Zeitung segir miðvikudaginn 3. maí að hafi menn gert sér vonir um að fundur Merkel með Pútín kynni að verða til þess að Rússar ætluðu að leggja sig fram um lausn mála í Úkraínu verði þeir fyrir vonbrigðum. Vissulega eigi Rússar og Þjóðverjar ýmislegt sameiginlegt en þeir séu ósammála um stórpólitísk alþjóðamál. Þar verði engar breytingar, Pútín sé og verði Pútín, inn á við og út á við. Hann hafi misst samstarfsfélaga á Vesturlöndum; hann nái engum „díl“ við Donald Trump. Útlitið sé dökkt.