Home / Fréttir / Við fall Daesh finnast gögn um fyrirhugaðar árásir í Evrópu

Við fall Daesh finnast gögn um fyrirhugaðar árásir í Evrópu

Hermenn Íraks á leið til Mósúl.
Hermenn Íraks á leið til Mósúl.

 

Breski hershöfðinginn Rupert Jones er í bakvarðasveit þeirra sem herja nú gegn liðsmönnum Daesh (Ríkis íslams) í Írak. Hann segir mánudaginn 28. nóvember við blaðamann telegraph.co.uk að fundist hafi upplýsingar á stöðum sem hryðjuverkamennirnir yfirgefa sem sýni að þeir hafi undirbúið hryðjuverk í Evrópu.

Talið er líklegt að meira slíkt komi í ljós við fall borgarinnar Mósúl sem nú er umsetin af hermönnum sem berjast gegn Daesh. Þar verði einnig að finna upplýsingar um áætlanir, fjármögnun og félaga í Daesh-samtökunum.

Hershöfðinginn telur að ekki megi búast við „skyndilausn“ í átökunum um Mósúl, aðra stærstu borg Íraks. Þau hafa nú staðið í sex vikur.

Jones hershöfðingi er annar æðsti yfirmaður herafla nokkurra samstarfsþjóða undir forystu Bandaríkjamanna sem vinnur með her Íraks. Blaðamaður Telegraph hitti hann ásamt rúmlega 250 breskum hermönnum sem voru nýlega sendir til Al Asad flugstöðvarinnar í Vestur-Írak þar sem þeir þjálfa hermenn frá Írak til að takast á við hryðjuverkamennina.

Gögnin sem fallið hafa í hendur Íraka og samstarfsmanna þeirra eru svo mikil að vöxtum að opnuð hefur verið rannsóknarstofa við Persaflóa til að grandskoða netþjóna, fartölvur og farsíma hryðjuverkamannanna og senda nýtilegar upplýsingar til leyniþjónustustofnana.

Hershöfðinginn segir að hertaka bæjarins Manbij sem var áfangastaður vígamanna sem fóru til Tyrklands og þaðan til Evrópu hafi opnað upplýsinganámu fyrir leyniþjónustumenn. Hann segir ljóst að svo lengi sem Daesh ráði yfir höfuðstöðvum sínum í bænum Raqqa í Sýrlandi geti þeir haft stjórn á útsendurum utan yfirráðasvæðis síns. Þess vegna sé brýnt að hrekja Daesh sem fyrst frá Raqqa.

Rupert Jones hershöfðingi segir:

„Ástæða þess að við erum hér allir er að Daesh hefur sýnt að samtökin ógna lífi okkar. Daesh hefur á afdrifaríkan hátt sýnt hverju samtökin fá áorkað í Evrópu og annars staðar.

Ég er þess fullviss að ótrúlega mikið af trúnaðargögnum mun finnast í Mósúl. Sameiginlega höfum við þróað getu okkar til að safna og leggja mat á slík gögn, hér munum við ganga inn í völundarhús alls kyns upplýsinga sem verður að miðla áfram til leyniþjónustustofnana okkar.“

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …