
Vestrænir embættismenn óttast að með umsvifum sínum víða um heim geti Vladimír Pútín Rússlandsforseti skapað hnattrænan óstöðugleika og ef til vill skapað vandræði innan Rússlands. Þeir telja að í raun vaki fyrir Pútín að styrkja stöðu Rússa að nýju á alþjóðavettvangi með því að hefja aðild að baráttunni gegn íslömskum öfgamönnum.
„Rússar verða sífellt yfirgangssamari og óútreiknanlegri,“ sagði embættismaður hjá NATO við fréttamann VOA, Voice of America, með ósk um að hann yrði ekki nafngreindur.
Áhyggjur af þessum toga hafa aukist eftir að Pútín gaf til kynna að Rússar mundu láta að sér kveða gegn hópum eins og Ríki íslams utan Sýrlands. Ástandið í Afganistan nálgaðist „mjög alvarlegt stig“.
„Telji þeir [Rússar] að umskipti hafi orðið til hins verra á öryggisástandinu í Afganistan kann áhugi á hagsmunum þeirra á svæðinu að aukast.“ sagði bandarískur embættismaður, hann bað um nafnleynd þar sem hann hefði ekki heimild til að ræða málið opinberlega,
Fyrrverandi embættismenn hafa einnig hvatt til varúðar. John Herbst, fyrrv. sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu, sagðist telja „mjög ólíklegt“ að Pútín mundi að nýju senda hermenn til Afganistan „en hann hefur verið svo óútreiknanlegur að það er alls ekki unnt að útiloka það“.
Föstudaginn 23. október tilkynntu Rússar að þeir hefðu samið við Jórdani í því skyni að koma á fót miðstöð í Amman til að samhæfa loftárásir í Sýrlandi.
Rússar hafa einnig rætt við íraska embættismenn um vopnasamning og hugsanleg hernaðartengsl. Fyrr í mánuðinum sögðu ráðamenn í Moskvu að þeir mundu selja herþyrlur og tæki til Egypta fyrir um milljarð dollara. Má rekja viðskiptin til þess að Egyptar keyptu tvö þyrlumóðurskip af Frökkum sem smíðuð voru fyrir Rússa og vopnabúnað þeirra.
Nú í október var einnig skýrt frá því að Rússar ætluðu að fjölga árásar- og flutningaþyrlum í herstöð sinni í Tajikistan, þá hefðu 1.200 hermenn í velhjóladeild verið settir í viðbragðsstöðu með skyndiæfingu í Volgograd.
Fyrir fáeinum dögum var skýrt frá því að Rússar ætluðu að auka herafla sinn á Kúril-eyjum en þar krefjast Japanir yfirráða.
Bandarískur leyniþjónustumaður sagði við VOA að allt benti þetta til þess að Pútín saknaði „hinnar sovésku dýrðar“. Þá vildi hann einnig beina athygli þegna sinna frá lækkun eldsneytisverð og versandi efnahag.
Aðrir benda á að Pútín sé einfaldlega að leita að leið út úr diplómatískri einangrun. Hann telji sig hafa stjórn á atburðarásinni og geti stýrt Rússlandi á verðugan stað á alþjóðavettvangi.