Home / Fréttir / Vestræn vopn til árása á Rússland – reiði í Moskvu

Vestræn vopn til árása á Rússland – reiði í Moskvu

Þjóðverjar tilkynntu á utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna í Prag föstudaginn 31. maí að þeir myndu heimila Úkraínustjórn að nota þýsk vopn á hernaðarleg skotmörk innan landamæra Rússlands. Áður hafði Bandaríkjastjórn veitt svipaða heimild við notkun á bandarískum vopnum. Má rekja nýja stefnu NATO-ríkja í þessu efni til nýrrar sóknar Rússa inn í Úkraínu.

Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO blés á hótanir Rússa um stigmögnun hernaðarátaka vegna þessara ákvarðana. Hann sagði að þær væru ekki nýjar á nálinni heldur liður í tilraunum Vladimirs Pútins Rússlandsforseta til að fæla NATO-þjóðir frá stuðningi við Úkraínu.

Joe Biden Bandaríkjaforseti heimilaði síðdegis fimmtudaginn 30. maí að bandarísk skotfæri mætti nota til árása á skotmörk innan Rússlands í þeim takmarkaða tilgangi að verja Kharkiv, aðra stærstu borg Úkraínu.

Jens Stoltenberg sagði að þessar heimildir til að beita vopnum gegn skotmörkum í Rússlandi miðuðu að því að framfylgja alþjóðalögum – gera Úkraínumönnum kleift að grípa til sjálfsvarnar. „Rússar hafa ráðist á Úkraínu og þar hafa menn rétt til að verjast. Í honum felst einnig að ráðast á réttmæt hernaðarleg skotmörk í Rússlandi,“ sagði Stoltenberg og einnig:

„Þegar litið er á vígstöðuna núna þá ráðast Rússar á yfirráðasvæði Úkraínu frá rússnesku landsvæði með stórskotavopnum, flugskeytum og liðsafnaði. Þetta veldur því að sjálfsögðu að það er mjög erfitt fyrir Úkraínumenn að verjast sé þeim ekki heimilt að nota háþróuð vopn til að hrinda þessum árásum.“

Reiði í Moskvu

Dmitríj Medvedev, fyrrv. forseti Rússlands og náinn samstarfsmaður Pútins sem varaformaður öryggisráðs Rússlands, brást föstudaginn 31. maí við fréttum af heimildum Bandaríkjastjórnar til Úkraínuhers með því að ítreka að Rússum væri full alvara þegar þeir segðust íhuga að beita vígvallarkjarnavopnum gegn Úkraínumönnum. Hann varaði einnig við því að átök Rússa við vestrið gætu stigmagnast í allsherjar ófriðarbál. „Enginn getur útilokað að átökin breytist og nái lokastigi,“ sagði hann.

„Rússar líta þannig á að öll langdræg vopn sem Úkraínuher notar séu nú þegar undir beinni stjórn hermanna frá NATO-ríkjum,“ sagði Medvedev. „Og slíkar aðgerðir gætu leitt af sér stríð [þ.e. orðið casus belli].“

Medvedev kveður að jafnaði fastar að orði en aðrir harðlínumenn í Kreml en greinendur meðal stjórnarerindreka telja að ummæli hans endurspegli það sem býr í huga æstu manna í hópi Kremlverja. Nú segir hann það „lífshættuleg mistök“ hjá vestrinu telji menn að Rússar séu ekki tilbúnir til að nota vígvallarkjarnavopn gegn Úkraínu.

Hann segir að nú sé versta hugsanlega sviðsmyndin í átökunum við vestrið að raungerast. Enginn geti á þessari stundu útilokað að átökin þróist á lokastig.

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …