
Andstæðingar Alexanders Lukasjenkos, forseta Hvíta-Rússlands, hvöttu til allsherjarverkfalls mánudaginn 17. ágúst. Víða urðu launþegar við þeirri hvatningu.
Starfsmenn hvítrússneska ríkisútvarpsins lögðu niður störf til stuðnings mótmælendum. Um 5.000 starfsmenn Minsk-dráttarvélasmiðjanna (MZKT) yfirgáfu vinnustað sinn og efndu til mótmælagöngu á götum höfuðborgarinnar. Þeir kröfðust afsagnar Lukasjenkos og hann fæli Svetlönu Tsikhanouskaju að taka við forsetaembættinu í sinn stað.
Lukasjenkos fór til móts við starfsmenn MZKT og sóttist eftir stuðningi þeirra. Var baulað á hann, hæðst var að honum með hlátrasköllum og hrópað: Farðu!
Í myndbandsávarpi 17. ágúst sem Svetlana Tsikhanouskaja flutti frá Litháen, en þar leitaði hún skjóls mánudaginn 10. ágúst, sagðist hún tilbúin til að taka að sér stjórn landsins með það fyrir augum að róa ástandið þar og koma því að nýju í eðlilegt horf. Hún mundi veita öllum pólitískum föngum frelsi og búa í haginn fyrir nýjar kosningar með lagasetningu og nýju skipulagi.
Tsikhanouskaja hvatti lögreglumenn til að segja skilið við stjórn Lukasjenkos, þeim yrði ekki refsað fyrir misgjörðir sínar gerðu þeir það.
Í BelAZ-verksmiðjunni í bænum Zhodzina, skammt frá Minsk, hétu starfsmenn því að hefja ótakmarkað verkfall nema verkalýðsnefnd þeirra semdi lista með kröfum þeirra og færi með hana til yfirstjórnarinnar. Meðal annars er rætt um að Lukasjenko eigi að segja af sér og efnt verði til nýrra kosninga.
Starfmenn við Naftan-jarðgas- og olíuvinnslustöðina og hjá Beraluskali-áburðarverksmiðjunni lögðu niður störf og settu fram svipaðar kröfur og starfsmenn BelAZ.
Í ræðu með stuðningsmönnum sínum sunnudaginn 16. ágúst sagði Lukasjenko að NATO yki hernaðarumsvif sín við 900 km löng vesturlandamæri Hvíta-Rússlands. Hann sagði einnig að Vladimir Pútin Rússlandsforseti hefði lýst stuðningi við sig. NATO hafnaði þessum fullyrðingum og sagði þær fyrirslátt.
Linas Linkevicius, utanríkisráðherra Litháens, sagði 17. ágúst að hernaðaraðstoð Rússa í Hvíta-Rússlandi jafngilti „innrás“:
„Það er ekki nokkur ástæða fyrir Rússa að veita hernaðaraðstoð, fyrir henni eru engin lögfræðileg rök eða annað. Í henni fælist innrás í landið og hún mundi afmá að fullu sjálfstæði þess.“
Olaf Scholz, fjármálaráðherra Þýskalands, sagði við dagblaðið Bild: „Hernaðarleg íhlutun í málefni annars lands er með öllu óviðunandi og brýtur gegn öllum reglum sem við höfum sett okkur með alþjóðalögum.“ Scholz, vara-kanslari Þýskalands, lýsti Lukasjenko sem einræðisherra sem hefði glatað trausti þjóðar sinnar.
Pólsk yfirvöld sögðu 17. ágúst að þau fylgdust vel með öllu við landamærin gagnvart Hvíta-Rússlandi en hvítrússneski herinn býr sig undir æfingar í Grodno-héraði við landamæri Póllands og Litháens.
„Þetta er til marks um að Hvít-Rússar reyna nú að stigmagna ástandið til að fá efni í frásögn sína um svonefnar erlendar ógnir,“ sagði Raimundas Karoblis, vara-varnarmálaráðherra Litháens 17. ágúst við AFP-fréttastofuna.