Home / Fréttir / Verðandi yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO vill herða varðstöðu gegn Rússum

Verðandi yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO vill herða varðstöðu gegn Rússum

 

Curtis Scaparrotti hershöfðingi.
Curtis Scaparrotti hershöfðingi.

Verðandi yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO og herafla Bandaríkjanna í Evrópu segir að hann styðji hugmyndina um að Bandaríkjamenn haldi stöðugt úti stórfylki í austurhluta Evrópu til þess að halda aftur af Rússum.

Curtis Scaparrotti, hershöfðingi í landher Bandaríkjanna, lét þessi orð falla á opnum fundi með varnarmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings fimmtudaginn 21. apríl. Þar sagðist hann einnig samþykkur því að bandarísk flugmóðurskip yrðu á Miðjarðarhafi til að senda „strategísk skilaboð“ til Rússa og Írana.

Bandaríkjastjórn hefur tilkynnt að hún vilji fjórfalda útgjöld til Evrópuhers síns á næsta fjárlagaári. Í stórfylki Bandaríkjahers eru milli 4.200 og 4.700 hermenn. Til þessa hafa markmið Bandaríkjastjórnar verið að þrjú stórfylki þeirra skiptist á að fara til Evrópu.

Pólverjar og fleiri NATO-þjóðir í austurhluta Evrópu hafa óskað eftir fastri viðveru bandarísks herafla í löndum sínum.

Scaparrotti sagði við þingnefndina að persónulega teldi hann best að bandarískt stórfylki hefði fasta viðveru í Evrópu.

Hershöfðinginn var spurður um nýlegt atvik á Eystrasalti þegar tvær rússneskar orrustuþotur æfðu árásarflug við bandarískan tundurspilli. Hann sagði þetta framferði Rússa ófyrirleitið og óréttlætanlegt. Hann sagði að frá hernaðarlegum sjónarhóli ættu Bandaríkjamenn að sigla og fljúga hvar sem alþjóðalög leyfðu og þeir ættu að sýna skýran vilja sinn í þessu efni.

Scaparrotti gaf einnig til kynna að hann myndi styðja að háþróaðri vopn yrðu send til stuðnings Úkraínumönnum í baráttu þeirra við aðskilnaðarsinna hliðholla Rússum. Til þessa hefur Bandaríkjastjórn hafnað óskum Úkraínustjórnar um sóknarvopn og þess í stað látið henni í té ratsjár, nætursjónauka og annan slíkan búnað.

Scaparrotti sagði að hann styddi að Úkraínustjórn fengi gagn-skriðrekavopn.

Stefnt er að þvi að í júní efni Bandaríkjaher og herir annarra NATO-ríki til einnar umfangsmestu heræfingar síðari ára í Póllandi með þátttöku 25.000 hermanna.

Heimild: RFE/RL

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …