Home / Fréttir / Venesúela: Hvatt til uppreisnar gegn stjórninni, boðað til stórmótmæla 1. maí

Venesúela: Hvatt til uppreisnar gegn stjórninni, boðað til stórmótmæla 1. maí

Juan Guaidó með hermönnum í flugherstöð við Caracas.
Juan Guaidó með hermönnum í flugherstöð við Caracas.

Stjórnarandstæðingar í Venesúela birtu snemma morgun þriðjudaginn 30. apríl myndband þar sem almennir borgarar og hermenn voru hvattir til þess að rísa gegn Nicolás Maduro, forseta landsins, og löglausri stjórn hans. Eftir að myndbandið var sýnt tók fólk að streyma að flugherstöð við höfuðborgina Caracas.

Juan Guaidó, leiðtogi stjórnarandstæðinga, í Venesúela kom þriðjudaginn 30. apríl fram á myndbandi með hermönnum og hvatti almenning og hermenn að fara út á götur og torg til að bola Nicolas Maduro frá völdum. Á myndbandinu sást einnig Leopoldo Lopez, þjóðkunnur stjórnarandstæðingur. Hann hefur setið í stofufangelsi.

Þýska fréttastofan DW ræddi við Guaidó þriðjudaginn 30. apríl sagði hann: „Herinn stendur ekki með Nicolás Maduro, hann vill breytingu og stendur með fólkinu og með stjórnarskránni.“

Þegar Guaidó var spurður hvort hann stæði fyrir byltingu sagði hann að stjórn Maduros hefði grafið undan réttarríkinu, hunsað stjórnarskrána og látið hjá líða að efna til frjálsra kosninga. „Þeir hrifsuðu til sín völdin,“ sagði hann um stjórn Maduros.

Guaidó sagði að baráttan gegn Maduro væri „friðsöm innan ramma stjórnarskrárinnar“ og hún yrði það áfram. „Við munum halda áfram mótmælum án ofbeldis eins og íbúar Venesúela gera þegar þeir fara út á götur til að mótmæla og setja fram kröfur.“

Myndbandið er þriggja mínútna langt og þar segir Guadió að „lokaáfanginn“ til að binda enda á „valdarán“ Maduros sé hafinn. Guadió er forseti þings Venesúela þar sem stjórnarandstæðingar eru í meirihluta. Hann hefur lýst sig forseta landsins til bráðabirgða vegna stjórnarskrárbrota Maduros.

„Þjóðarherinn hefur tekið rétta ákvörðun og hann treystir á stuðning þjóðarinnar,“ sagði Guaidó á myndbandinu sem tekið er í flugherstöðinni La Carlota við Caracas. Hann áréttaði að hann hefði hitt liðsmenn herdeilda.

Maduro sagði á Twitter að hann hefði átt fundi með svæðisstjórum hersins og þeir hefðu lýst „afdráttarlausri hollustu“ og hann hvatti almenning til láta að sér kveða af fullum þunga.

Leopoldo Lopez er í forystusveit stjórnarandstæðinga. Hann sagði á Twitter að herinn hefði leyst sig úr stofufangelsi að skipun Guadiós sem hefði stjórnskipulegt umboð til að gefa slík fyrirmæli.

Leopoldo Lopez, leiðtogi stjórnarandstæðinga, laus úr stofufangelsi.
Leopoldo Lopez, leiðtogi stjórnarandstæðinga, laus úr stofufangelsi.

„Þetta er rétta augnablikið fyrir alla íbúa Venesúela, þá sem eru í einkennisklæðum og einnig hina,“ sagði Lopez í fyrsta sinn sem hann lét heyra frá sér opinberlega frá því að hann var hnepptur í fangelsi árið 2014 fyrir að leiða mótmæli gegn ríkisstjórninni. „Allir ættu að koma út á göturnar, með friði.“

Jorge Rodriguez upplýsingamálaráðerra sagði á Twitter að ríkisstjórnin ynni að því að „taka á og aftengja lítinn hóp svikara innan hersins“ sem styddu byltingu.

Vladimir Padrino varnarmálaráðherra sagði á Twitter að herinn mundi „staðfastlega“ verja „lögmæta“ ríkisstjórn Maduros og allar deildir hersins væru undir „venjulegri“ herstjórn. „Við höfnum þessari byltingarhreyfingu sem vill að landið verði undirlagt ofbeldi,“ sagði Padrino.

Diosdado Cabello, leiðtogi flokks sósíalista, hafði samband við ríkissjónvarpið og hvatti stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar til að safnast saman fyrir framan forsetahöllina og verja Maduro gegn uppreisn.

Guadió lýsti sjálfan sig forseta til bráðabirgða í janúar 2019 þar sem endurkjör Maduros í forsetaembættið árið 2018 hefði verið ólögmætt. Ríkisstjórnir um 50 landa hafa viðurkennt Guadió sem bráðabirgðaforseta.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lýsti á Twitter stuðningi við Guaidó og sagði: „Bandaríkjastjórn stendur heilshugar að baki íbúum Venesúela þegar þeir krefjast frelsis og lýðræðis. Ekki er unnt að sigrast á lýðræðinu.“

Myndbandið var birt í tilefni af því að Guadió hefur hvatt til „fjölmennustu göngu í sögu Venesúela“ miðvikudaginn 1. maí.

„Íbúar Venesúela, það er nauðsynkegt að við förum út á götur til að styðja lýðræðisöfl og endurheimta frelsi okkar. Skipulögð og samhent, meginherdeildir hafa verið virkjaðar,“ sagði hann á Twitter.

 

 

 

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …