
Alþjóðaþrýstingur á Nicolas Maduro, forseta Venesúela, eykst. Þar sem hann varð ekki sunnudaginn 3. febrúar við kröfu ESB-ríkja um að boða strax til kosninga hafa sum þeirra viðurkennt Juan Guaido, leiðtoga stjórnarandstöðunnar og forseta þings Venesúela, sem bráðabirgðaforseta landsins.
Mánudaginn 4. febrúar viðurkenndu ríkisstjórnir a.m. k. ESB-ríkja Guaido sem bráðabirgðaforseta. Ríkin eru: Frakkland, Spánn, Þýskaland, Bretland, Protúgal, Svíþjóð, Danmörk, Austurríki, Holland, Tékkland, Lettland, Litháen, Finnland og Lúxemborg Áður hafði ESB gefið Maduro átta daga frest til að boða til kosninga. Ítalir komu í veg fyrir að ályktun gegn Maduro yrði gefin út í nafni ESB. Grikkir og Írar hvetja til kosninga í Venesúela en hafa ekki viðurkennt Guaido.
„Við erum á sama stað og Norðurlöndin og flest Evrópuríki þegar kemur að því að styðja Guaidó, við þessar aðstæður, sem forseta, þangað til að nýjar lýðræðislegar kosningar verða haldnar,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra við mbl.is mánudaginn 4. febrúar.
Angela Merkel Þýskalandskanslari er í tveggja daga heimsókn til Japans. Hún sagði á blaðamannafundi þar að „við viðurkennum Juan Guaido sem bráðabirgðaforseta Venesúela með það verkefni að hefja breytingar á stjórnmálasviðinu og að leiða þjóðina til frjálsra, gegnsærra og trúverðugra kosninga“. Hún sagðist vona að Guaido boðaði til þessara kosninga eins fljótt og verða mætti.
Spánverjar urðu fyrstir ESB-þjóða til að viðurkenna Guaido sem forseta til bráðabirgða. Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, sagði að Guaido væri forseti þjóðþings Venesúela og þess vegna nyti hann viðurkenningar spænsku stjórnarinnar. Efna ætti til kosninga undir forystu hans sem fyrst til að endurvekja lýðræði í Venesúela, tryggja mannréttindi og frelsa pólitíska fanga.
Breska stjórnin sigldi í kjölfar Spánverja og síðan bættist Emmanuel Macron Frakklandsforseti í hópinn með yfirlýsingu á Twitter til stuðnings Guaido.
Rússnesk stjórnvöld kunna ekki að meta stuðning Evrópuríkja við Guaido. Rússar urðu einna fyrstir til að lýsa trausti á Maduro eftir að Guaido lýsti forystu sinni gegn honum. Talsmaður Pútins sagði mánudaginn 4. febrúar að með stuðningi sínum við Guaido væru evrópskar ríkisstjórnir með „erlend afskipti“. Voru þau sjónarmið Rússa áréttuð að íbúar Venesúela ættu sjálfir að finna lausn á innanlands-vanda sínum.
Guaido nýtur þegar viðurkenningar frá Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu og ýmsum S-Ameríkuríkjum.
Óljóst er hvaða áhrif þetta hefur á Maduro. Unnið er að því að koma á fundi í svonefndum Lima-hópi þar sem fulltrúar 14 S-Ameríkuríkja sitja. Ætlunin er að ræða þar leið til lausnar á vandanum í Venesúela. Fulltrúar í þessum hópi stíga þó varlega til jarðar til að skapa ekki fordæmi gagnvart eigin löndum þar stjórnarhættir þykja ekki endilega til fyrirmyndar.